2025 spá

 


Gleðilegt nýtt ár!

Ég tók saman síðastliðið ár á Instagram og fór yfir það helsta sem ég hef fjallað um á árinu, en þvílíkt ár. Krúnuskipti í Danmörku, samsæriskenningar um Katrínu, alvarlega veikindi og slys hjá bresku konungsfjölskyldunni, Ólympíuleikar, skandall í norsku konungsfjölskyldunni og fullt af nýjum myndum. Þið getið skoðað umfjöllunina á Instagraminu mínu, en hún er nokkuð löng, en vonandi skemmtilegur lestur. 

Undanfarin ár hef ég tekið saman nokkra punkta í lok árs um hvað gæti gerast á nýju ári og tek saman hvað ég hafði rétt fyrir mér um árið á undan. Byrjum á því að fara yfir hvað ég hafði rétt og rangt fyrir mér í spánni fyrir 2024:

Hægt að lesa það sem ég skrifaði fyrir ári og hér fyrir neðan er hvað var rétt og hvað var ekki:

Wales-fjölskyldan
  • Þetta ár var mjög sérstakt, og eðlilega var margt sem ég spáði fyrir alls ekki rétt. 
  • Þau fóru ekki í opinbera ferð erlendis á árinu, en Vilhjálmur og Katrín sáust bara frekar lítið á árinu. 
  • Ég hafði velt fyrir mér að það yrði tilkynnt um hvaða skóla Georg myndi fara í en það var mikið rætt 2023, en hef varla heyrt um það 2024.
  • Við heyrðum Vilhjálm nota frasa á velsku og gefur það til kynna að hann sé eitthvað að reyna að læra tungumálið. 
  • Við sáum reyndar Karlottu með Katrínu á Wimbledon á árinu! Ég hafði rétt fyrir mér með það en Georg valdi að fara frekar á fótboltaleik með pabba sínum. 
  • Katrín fór ekki með Vilhjálmi á Earthshot verðlaunahátíðina.
  • Ég hafði spáð að við myndum sjá meira af Katrínu í dragt en Katrín kom lítið fram opinberlega í heimsóknum sem tengdust hennar verkefnum, og voru það aðallega formlegri tilefni þar sem hún var í kjól eða kápukjól.

Harry og Meghan
  • Ég hef verið með einhvern misskilning og talið að vetrarleikar Invictus-leikanna væru 2024, en þeir verða 2025. Við sáum þó Harry og Meghan heimsækja Kanada og voru t.d. mikið með Michael Bublé og eiginkonu hans. 
  • Ég skrifaði að það yrði lítið sem ekkert samband milli Harry og konungsfjölskyldunnar og það var nokkuð rétt. Við sáum þó Harry koma til Bretlands þegar Karl tilkynnti að hann hefði greinst með krabbamein. Það var þó mjög stutt heimsókn og að öðru tilefni kom Harry til Bretlands en það kom víst upp seint og Karl hafði ekki tök á að hitta hann, og Harry afþakkaði boð um að gista í höllinni til að eiga möguleika á að hitta hann. Allt mjög sérkennilegt en samt miða við það sem áður gekk, virðist þetta vera hænuskref í rétta átt. Harry hefur mun minna tjáð sig um fjölskylduna opinberlega og virðist vera að reyna að bæta þetta. En það kom þó fram á árinu að Harry og Meghan fréttu af veikindum Katrínar á sama tíma og restin af heiminum, þannig það er held ég ekkert samband milli þeirra bræðra. Ennþá.. held það muni koma en það sé enm langt í land. 
  • Ég hafði rétt fyrir mér að það yrði tilkynnt um nýtt fyrirtæki undir Archewell! En það var ekki beint nýtt, bara nýtt skipulag á starfsemi þeirra. Kom mér á óvart að það var tilkynnt um nýja seríu af hlaðvarpinu en það kom aldrei. Kom samt stór tilkynning, American Riveria Orchard en það var því miður ekki mikið meira en tilkynning.


Almennt
  • Við höfum svo sannarlega séð Andrew verða til vandræða á árinu. Byrjaði þó þannig að hann væri til friðs og Karl leyfði honum og Sarah Ferguson að vera með í páskamessunni í ár. En í lok árs kom þessi njósnaskandall upp og Andrew hefur ekki komið fram síðan. 
  • Myndin um viðtal Andrew kom út, og reyndar þættir líka frá öðru fyrirtæki... en mér fannst samt einhvern veginn ekki eins og þetta hafði slæm áhrif á ímynd Andrew. Hún var svo slæm fyrir og myndin bauð ekki upp á mikið nýtt fyrir almenning. 
  • LOKSINS fengum við að sjá fjölskylduorðu Karls. Hún er mjög ljós græn og er ég mjög glöð að ég hef alltaf talið að hún verði græn á litinn. Við höfum þó hingað til bara séð Kamillu með orðuna. 
  • Það kom ekki önnur heimildamynd eins og var gerð um krýninguna, en vissulega árið búið að vera mjög skrítið og allir helstu meðlimir verið frá í einhvern tíma á árinu. Karl í aðgerð og krabbameinsmeðferð, Katrín líka, Vilhjálmur frá til að vera með fjölskyldunni, Anna prinsessa lenti í slysi og var smá stund á spítala og Kamilla fékk nokkuð slæma lungnabólgu og var mjög þreytt eftir sýkinguna. Ekki margt til að fjalla um í raun. En þó, Vilhjálmur gaf út heimildaþætti um Homewards verkefnið sitt og því hægt að segja að konungsfjölskyldan er að byrja að nota þetta form meira. 
  • Held ég verið að segja að ég hafi haft rétt fyrir mér að þetta væri rólegt ár hjá konungsfjölskyldunni, en þó voru þau mikið í fjölmiðlum. Mikið um pælingar hvað væri á að og gagnrýni að t.d. ekki væri gefið upp hvað væri að. 

- - -

En núna að mínum pælingum fyrir nýja árið:

2025

Wales-fjölskyldan
  • Ég spáði fyrir þessu í fyrra og langar að setja það aftur, að við munum sjá Karl, Vilhjálm og Georg saman í einhverri heimsókn eða gera eitthvað saman fyrir eitthvað tilefni. 
  • Vilhjálmur mun heimsækja Vatíkanið á árinu. 
  • Katrín mun áfram sjást lítið í byrjun árs, en ég vona að næsta haust muni hún koma aftur til starfa. Held að hún sé mjög varkár með þetta og að þessi heilsubrestur hafi hrætt hana og fjölskylduna. 
  • Tel að Katrín muni vera með einhverja heimsókn á árinu sem tengist spítala og krabbameinsgreiningu. Jafnvel í lok næsta ár að hún taki að sér að verða verndari samtaka sem aðstoða fólk sem fær þessa greiningu. 
  • Þegar fréttir af veikindum Katrínar komu fyrst þá taldi ég að Katrín myndi segja frá því seinna hvernig krabbamein hún var með, en núna tel ég að hún muni ekki greina frá því. Það væri mjög persónulegt og eitthvað sem ég tel að hún vilji ekki að fólk viti. 
  • Ég hef velt því fyrir mér hvort að við munum sjá meira af svona myndböndum eins kom út seinasta haust. Vilhjálmur og Katrín munu halda áfram að nota myndbönd á samfélagsmiðlum sínum eins og þau hafa gert en held við munum ekki sjá aftur svona langt myndband eins og þegar Katrín tilkynnti að hún hefði lokið krabbameinsmeðferð.

Harry og Meghan
  • Held við mundum sjá almennilega mynd af Harry og Meghan og börnunum á þessu ári. Líklegast tengt Invictus-leikunum í Kanada. Harry og Meghan hafa sterka tengingu við Kanada og þykir vænt um landið. 
  • Harry mun halda áfram að kæra breska slúðurfjölmiðlana, en það kemur eitthvað bakslag í því. 
  • Við munum áfram sjá Harry og Meghan vinna í sitthvoru lagi og sinna sínum einstaklingsverkefnum, en gera þó eitthvað saman. 
  • Þau munu fara í aðra svona "konunglega" heimsókn erlendis á næsta ári. Virðist ganga vel hjá þeim og landið sem tekur á móti þeim fær mikla athygli.
  • Ég ætla að vera smá svartsýn varðandi Meghan, en vona að ég hafi rangt fyrir mér. Hún byrjaði að nota nýjan Instagram reikning núna 1. janúar 2025 og ég veit ekki hvað hún ætlar sér með hann. En hún, og Harry, eru mjög dugleg að tilkynna hluti sem verða að engu. Held hún æti sér eitthvað nýtt með þetta, en það er spurning hvað það er. 
  • American Riveria Orchard mun ekki verða að neinu meira á þessu ári, það hefur gengið eitthvað illa víst að fá leyfi til að selja vörur undir þessu merki og held að Meghan hafi gefist upp á þessu.
  • Það mun ekki koma út ný sería af hlaðvarpi Meghan þó hún hafi tilkynnt annað í fyrra. 
  • Netflix mun slíta samningnum við Harry og Meghan, hefur ekki gengið mjög vel með nýjustu verkefnin þar, Polo þættirnir t.d. hafa ekki verið vinsælir. Held það verði samt ekki dramatískt heldur frekar að þau muni ekki endurnýja samning við þau. 
  • Meghan mun tilkynna um nýja bók, en ég held það verði lífstílsbók eða matreiðslubók. 

Almennt
  • Ég er hrædd um að heilsufar Karls og Kamillu muni ekki fara batnandi. En Karl mun halda áfram að standa sig í sínu. Hann mun áfram vera í krabbameinsmeðferð en sinna skyldum sínum. Held að þessi lungnabólga hafi farið illa í Kamillu og er hrædd um að hún verði meira lasin á næsta ári.
  • Beatrice prinsessa á von á barni - ætla að giska að það verði strákur.
  • Andrew mun láta lítið fyrir sér fara á árinu, og mun áfram búa í Royal Lodge þrátt fyrir sögusagnir um annað.
Langar að bæta við nýjum flokki og það eru aðrar konungsfjölskyldur:
  • Þessi skandall í Noregi varðandi stjúpson Hákonar mun halda áfram. Þessi máli er langt frá lokið og á eftir t.d. að kveða upp dóm í málinu. Norskir fjölmiðlar munu halda áfram að spyrja spurninga um hversu mikið höllin vissi og hvor að höllin hafi reynt að kæfa þetta mál eitthvað. 
  • Haraldur konungur mun aftur lenda í basli við heilsuna og vera frá skyldum sínum stóran hluta af árinu. 
  • Held við mundum sjá einhvern heilsubrest hjá annaðhvort Karl-Gústafi eða Silvíu í Svíþjóð. 
  • Núna eru nokkrar prinsessur í Evrópu komnar á fullorðinsaldur, Ingrid í Noregi, Leonor á Spáni, Katrín-Amelía í Hollandi og Elisabeth í Belgíu. Kæmi ekki á óvart að það yrði opinbert að allavega ein þeirra sé í alvarlegu sambandi á árinu. En eins og er eru þær allar í námi, og þrjár þeirra eru í eða eru búnar að ljúka herþjálfun. 
  • Kristján krónprins Danmerkur mun taka að sér að verða verndari einhverja samtaka á árinu og byrja að gera aðeins meira í þessu nýja hlutverki. En hann er ekki komin í fullt starf sem prins þar sem hann er í námi.