Byrjum á smá annáll
Þvílkt ár! Árið byrjaði á miklu drama varðandi bókina hans Harry, munið kannski að bókin kom óvart út á portúgölsku áður en hún kom út á ensku, og allir konunglegir fréttaritarar og blaðamenn flugu til Portúgal til að kaupa bókina og fóru svo á fullt að reyna að þýða hana. Sem varð til þess að við fengum margar fréttir um hvað væri í bókinni þar sem samhengið var ekkert. Og síðan kom bókin loksins út, og við fengum að kynnast betur hvað Harry hefur upplifað og verið að hugsa. Við tóku viðtöl þar sem hann talaði opinskátt um sína æskuár og samband sitt við fjölskylduna sína. Ég var með svo margar pælingar eftir að hafa lesið bókina að ég gaf út hlaðvarpsþætti til að deila þessum pælingum með ykkur - á samt alltaf eftir að klára umfjöllunina. Við sáum konungsfjölskylduna hunsa þessa bók algjörlega, og ég verð að segja að þeim tókst það vel. Never complain, never explain eins og svo oft er sagt.
Við sáum Katrínu stækka Early Years verkefnið sitt og sáum Vilhjálm stofna nýtt verkefni sem á og er að hjálpa fólki sem er heimilislaust. Við sáum þau fara til Wales og styrkja sambandið þar, en þau fóru þar í messu á dánardegi Elísabetar II. Hefði viljað sjá þau árinu læra velsku eða einhverskonar fagna tungumálinu, vona allavega að þau og krakkarnir séu að læra tungumálið eins og Karl gerði á sínum tíma. Finnst mikilvægt að gera það þar sem þau bera titlana prinsinn og prinsessan af Wales.
Það sem mér finnst standa upp úr er brúðkaupið í Jórdaníu. Við sáum mikið af kóngafólki Evrópu mæta á þrjá stóra viðburði sem voru mjög tignarlegir. Ég vissi lítið sem ekkert um konungsfjölskylduna í Jórdaníum og var gaman að læra eitthvað nýtt og kynnast nýju konugsríki með hefðir og já, mikið drama. Einnig hefur landið verið mikið í fréttum nýlega.
Annarstaðar í Evrópu höfum við séð erfingja verða eldri og taka meiri þátt í opinberum skyldum. Ingrid í Noregi, Katrín Amalía í Hollandi, Elisabeth í Belgíu og svo Kristján í Danmörku. Kristján varð 18 ára á árinu og hélt höllin stóra veislu og partý, hef reyndar heyrt frá nokkrum að á mælikvarða jafnaldra Kristjáns þá var þetta ekki mikið partý.
Við höfum séð miklar breytingar hjá Harry og Meghan á árinu. Bókin varð til þess að það var mikið gert grín að þeim báðum á árinu og svo tilkynntu þau að ljósmyndarar hefðu verið að elta bíl þeirra í NewYork sem varð að miklu drama líka. En síðan um svona mitt ár þá finnst mér þau hafa verið að breyta miklu hjá sér og svona loksins verið búin að finna sinn fókus. Þau virðast núna vera að einbeita sér að góðgerðarstarfsemi, Invicust-leikunum og viðskiptatækifærum. Held að þau séu núna á fullu að reyna að breyta ímynd sinni og skilja alveg við konunglega lífið.
Krýning Karls og Kamillu var klárlega hápunktur ársins, þó að ég sé ennþá að reyna að sætta mig við að þetta hafi ekki verið kórónuviðburður! En það er í lagi af því Katrín fékk loksins nýja kórónu á þessu ári. En krýningin var einstakur viðburður, að sjá allar þessar hefðir sem eru margar aldargamlar en einnig sjá hvernig höllin og Bretland eru að reyna að nútímavæða.
Við sáum seinustu seríuna af The Crown í desember. Mér fannst hún mjög fín, en fannst samt frekar lítið fara fyrir henni. Sérstaklega miða við fyrri seríur.
Undanfarin ár hef ég tekið saman nokkra punkta í lok árs um hvað gæti gerast á nýju ári og tek saman hvað ég hafði rétt fyrir mér um árið á undan.
- Hef sagt þetta áður, en ég held áfram að spá því að við munum sjá þau fara í stóra opinbera ferð erlendis þar sem börnin koma með. '
- Það hafa komið margar sögur núna um í hvaða skóla Georg mun fara í, og ég ætla spá að hann fari ekki í Eton, heldur í gamla skólann hennar Katrínar eða annan skóla.
- Þetta er kannski meira von, en ég held við munum sjá Vilhjálm byrja ræðu á árinu á velsku.
- Við munum aftur sjá Karlottu og Georg á Wimbledon í ár, og þetta verður árlegur viðburður fyrir þau.
- Katrín fór ekki með Vilhjálmi á Earthshot athöfnina í ár, en ég held hún muni fara með á næsta.
- Við munum áfram sjá Katrínu í drögtum, en hún hefur mikið haldið upp á þær á árinu sem er að líða. Sérstaklega í heimsóknum sem tengjast verkefnum hennar. Hún er meira í kjólum og kápukjólum við opinbern tilefni tengt konungsfjölskyldunni. Ég vona bara að hún hætti að vera í svona alltof síðum buxum.
Harry og Meghan
- Invictus-leikarnir verða í Kanada 2024 og verður það sérstök vetrarútgáfa þar sem verður keppt í vetraríþróttum. Við höfum fengið nokkrar vísbendingar frá H&M að þau muni taka krakkana með sér og ég spái því að við munum fá einhverskonar fjölskyldumynd frá þessum viðburði en held að krakkarnir muni ekki taka þátt í neinum viðburði.
- Við munum ekki sjá neitt samband við þeirra og konungsfjölskyldunnar þetta árið, þó svo að það muni verða fullt af fréttum um annað. Ég held að þau þurfi aðeins að vinna að sambandinu hægt og rólega, og ekki í sviðsljósinu. Annars held ég að það muni taka Vilhjálm ansi langan tíma að taka bróður sinn aftur í sátt.
- Það hefur farið lítið fyrir Meghan þetta árið og ég held að á næsta ári munum við sjá eitthvað stórt frá henni. Ég held það hafi verið skellur fyrir hana að missa hlaðvarpið sitt og hún hafi þurft að finna nýtt verkefni. Hún réði nýja stofu á árinu sem er að vinna að því að bæta ímynd hennar, og ég held við munum sjá meira úr þeirri vinnu á næsta ári. Ég held að hún muni tilkynna nýtt fyrirtæki undir Archwell á árinu.
- Andrew verður til mikilla vandræða á næsta ári. Við vitum núna að í janúar munu skjöl úr máli Epstein verða opinber, og það mun ekki koma vel út fyrir prinsinn. Byggt á því sem hefur verið að gerast undanfarnar vikur þá held ég að Karl muni styðja bróður sinn í gegnum þetta allt. Ég vona samt að Andrew, og Fergie verði haldið frá sviðsljósinu meðan þetta er í gangi.
- Og Andrew verður aftur til vandræða fyrir konungsfjölskylduna á árinu þegar Netflix gefur út myndina um viðtalið hans við BBC. Ég held að þetta verði til þess að Andrew verði samt lítið með í opinberum konunglegum viðburðum, og það verði útaf þrýstingi frá Vilhjálmi.
- Fjölskylduorða Karls hlýtur að verða tilbúin og við munum sjá hana á nýju ári. Finnst líklegast að við munum sjá hana þegar það er komið ár frá krýningunni. Ég held áfram að segja að hún verði græn og muni vera einhver tenging við náttúruna.
- Ég held, og vona, að við munum sjá aftur svona heimildamynd í lok ársins. Mér fannst þetta skemmtilegt og gaman að sjá svona bakvið tjöldin. Þetta minnir líka á heimildamyndirnar sem skandinavísku konungsfjölskyldunnar gera á hverju ári sem taka saman hvað þau gera á hverju ári. Þetta er flott leið til að sýna almenningi hvað konungsfjölskyldunnar eru að gera.
- Annars held ég að árið verði nokkuð rólegt hjá konungsfjölskyldunni þetta árið, það er mikið búið að vera að gerast undanfarin ár og búið að vera mikið af stórum viðburðumæ. Það er kominn tími á smá rólegheit.
Hægt að lesa það sem ég skrifaði fyrir ári og hér fyrir neðan er hvað var rétt og hvað var ekki:
- Bókin hans Harry var mjög sjokkerandi, en mér fannst það vera frekar að lesa um hvernig hann hugsar og allt sem hann hefur gert og allt sem hann bara vissi ekki. En það var rétt hjá mér að bókin var góð sýn á hversu illa Harry leið og að hann var alltaf að leita að leið út úr konunglega lífinu.
- Það var bara Harry sem mætti á krýninguna, ekki Meghan. En það var vissulega mjög stutt stopp hjá Harry. Hann fór beint út á flugvöll eftir athöfnina.
- Við sáum kannski ekki stórar fréttir varðandi Archewell en samt hægt að segja að það að Spotify hætti með hlaðvarpið sé tengt Archewell. En ég hafði rangt fyrir mér að það kæmi önnur sería.
- Við sáumn fjölskylduna ekki ferðast saman opinbera erlendis á árinu.
- Vilhjálmur tilkynnti stórt verkefni á árinu, Homewards sem samræmir ýmsa aðstoð og félög í samvinnu við bæjarfélög til að hjálpa heimilislausum.
- Við sáum Georg, Karl og Vilhjálm ekki saman á árinu í sérstakri heimsókn.
- Katrín fékk ekki nýja orðu á árinu en fékk nýja hertitla, fleiri en einn.
- Hún fór þó ekki erlendis ein á þessu ári.
- Og Vilhjálmur er ekkert að byrja að læra velsku, svo við vitum allavega.
- Krýningin var ekki kórónuviðburður, og ég er enn að jafna mig.
- Við fengum furðulega fára opinberar myndir frá viðburðinum fannst mér. Við vitum t.d. öll að það er til mynd af Wales-fjölskyldunni og það er bara ekkert verið að sýna hana...
- Loksins fékk Katrín þó nýja kórónu úr safni Karls. Við höfum séð Kamillu líka með mikið skart sem við höfum ekki séð lengi. Hef grun um að Karl sé meira til í að opna geymslurnar en Elísabet var.
- Georg, Karlotta og Lúðvík voru öll viðstödd krýninguna og stóðu sig mjög vel.
- Bara Harry mætti.
- Mér finnst breskir fjölmiðlar tala meira núna um að Kamilla sé drottning og Queen Consort er mun minna notað.
- Það var enginn sérstakur viðburður til að fagna því að Vilhjálmur er núna prinsinn af Wales, en við sáum hann og Katrínu heimsækja Wales oftar en einu sinni á árinu og sáum þau einnig minna á að þau bjuggu nokkur ár í Wales og eiga samband við landið.
- Ég er enn að bíða eftir fjölskylduorðunni hans Karls og kvenkyns meðlimir konungsfjölskyldunnar voru ennþá með fjölskylduorðu Elísabetar á viðhafnarviðburðum á þessu ári.