Dómsmál Harry

 


Þessa daganna hefur verið mikið fjallað um kæru Harry á hendur MGN, eða Mirror Group Newspaper sem gefur út blöðin Daily Mirror og Sunday Mirror. Harry sakar fjölmiðilinn um að hafa aflað sér upplýsinga um hann með ólöglegum hætti, t.d. með því að hlera símtöl og hlusta á talskilaboð. Harry er ekki einn með kæruna en hans krafa er sú stærsta. MGN neita ásökunum.

Harry var kallaður sem vitni í málinu og var spurður spurninga í um einn og hálfan dag. Það var talið stórt mál þar sem hann er fyrsti heldri meðlimur konungsfjölskyldunnar til að vera kallaður til vitnis í réttarhöldum í 132 ár. En seinast var það Edward VII sem var kallaður sem vitni í réttarhöldum árið 1871 um svindl í spilum. Það mál var því alls ekki jafn stórt og þetta.

Réttarhöldin hófust á mánudaginn 5. júní, og var Harry ekki mættur. Þetta vakti mikla furðu hjá dómaranum, sem hafði viljað hafa alla tilbúna í salnum ef að dagskráin gengi hratt fyrir sig. Lögmenn Harry komu með þá útskýringu að Harry hefði daginn áður verið að halda upp á afmæli dóttur sinnar og komið til London seint um kvöldið. Dómarinn var þó ekki ánægður með þá útskýringu. Þetta byrjaði því ekki vel fyrir Harry.

Á þriðjudaginn var langur dagur þar sem Harry byrjaði á að leggja fram 55 bls. ritaðan vitnisburð. Harry tilkynnti að hann hefði skrifað þetta eftir þónokkur myndsímtöl með lögfræðingum sínum. Það vakti furðu konunglegra fréttaritara að Harry notar rangan formlegan titil um föður sinn, en í vitnisburðinum stendur að Harry sé sonur “HRH King Charles” en þar sem Karl er núna konungur notar hann ekki HRH (His Royal Highness) heldur er sagt HM King Charles (HM=His Majesty).

Í vitnisburðinum kemur Harry með lista yfir sínar ásakanir, og vitnar í 148 greinar sem hann segir að séu byggðar á upplýsingum sem hafi verið komist að með ólöglegum leiðum. Það er nú ekki alveg gerlegt að fara yfir hverja og eina, þannig ég mun frekar gera hér tilraun til að koma með smá samantekt á þessu.

Harry kemur með mörg dæmi um greinar sem hafa verið skrifaðar, allar á um 15 ára tímabili frá árunum 1996-2011, sem hann telur að sé ómögulegt að fjölmiðlar hafi getað vitað um.

Lögfræðingur MGN byrjaði spurningar sínar til Harry á að biðja hann afsökunar og viðurkenna að hann eigi rétt á bótum. Það væri fyrir eitt atvik sem hefur verið sannað að upplýsingum um Harry hafi verið aflað með ólöglegum hætti. En það atvik er ekki hluti af máli Harrys í þetta sinn. Það atvik er að blaðamaður fékk einkaspæjara til að fá upplýsingar um hvað Harry var að gera í næturklúbb 2004.

Chelsy Davy

Harry og Chelsy árið 2010
Mikið af sögunum sem Harry er að kæra yfir eru sögur um samband hans við Chelsy Davy. En Chelsy var kærasta Harry á árunum 2004-2011, þau hættu þó nokkrum sinnum saman og byrjuðu aftur saman á þessu tímabili. Þau hættu saman af því að Chelsy vildi ekki verða hluti af konungsfjölskyldunni. Þau Harry héldu þó áfram að vera vinir og var Chelsy boðið í brúðkaup Harry og Meghan árið 2018.

Harry vill meina að fjölmiðlar og greinar sem voru skrifaðar um þau séu ástæðan fyrir því að Chelsy ákvað að konunglega lífið væri ekki fyrir hana og varð til þess að þau hættu saman. Hann segir að Chelsy hafi verið elt af ljósmyndurum, síminn hennar hakkaður og að fjölmiðlar hafi í raun gert henni lífið mjög leitt. Það hafi allt leitt til þess að þau hættu saman. Þetta er ekkert uppspuni hjá Harry, það er vitað í dag að Chelsy var hundelt af ljósmyndurum meðan þau voru saman og í rannsóknarskýrslu um hakkanir News of the World eru gögn um að sími Chelsy var oft hakkaður.

Slúðurblöðin þó hafa notað þessa staðreynd, að svona mikið af greinunum séu um samband Harry og Chelsy, sé hreinlega vegna þess að Harry sé ennþá ástfanginn af henni og að hann sjái svo eftir henni. Og þetta ýti undir það að Harry og Meghan séu mögulega að fara að skilja. Þetta er samt algjörlega eitthvað sem slúðurblöðin eru sjálf að lesa úr gögnum málsins.

Einhleypi prinsinn

Harry vill þó meina að það hafi einhvern veginn verið í hag fjölmiðla og slúðurblaðanna að hann væri einhleypur. Það hafi auðveldað þeim að skrifa juicy sögur um hann o.fl. Þegar hann hafi verið í sambandi t.d. með Chelsy Davy þá voru blöðin sífellt að skrifa um ágreining á milli þeirra og verið að leita að upplýsingum sem gáfu til kynna að þau væru að hætta saman.

Hann bætir við í lokin að þetta sé í rauninni ennþá í gangi núna. Þar er hann að vitna í það að í dag er mikið skrifað um sögusagnir um skilnað hans og Meghan og sífellt verið að leita að upplýsingum um af hverju samband þeirra er ekki að ganga upp. Einnig sagði hann að þetta hafi verið ástæðan fyrir árásum á Meghan í fjölmiðlum, til að þau myndu hætta saman og að Harry yrði aftur einhleypi prinsinn.

Yfirheyrsla frá lögfræðingi MGN

Lögfræðingur MGN var duglegur að spyrja Harry af hverju hann hefði valið að kæra MGN, en ekki aðra fjölmiðla og kom með nokkur dæmi þar sem greinar sem Harry er að kæra útaf og vitnar í, þar sem sömu upplýsingar hafi komið fram í greinum hjá öðrum fjölmiðlum sem hafi komið út samdægurs eða jafnvel daginn áður. Þannig sé erfitt að segja að MGN hafi aflað upplýsinganna þar sem aðrir fjölmiðlar hafi vitað það sama. Harry svarar þessu að hann sé að kæra aðra fjölmiðla líka og teymi hans af lögfræðingum hafi komið með þá útskýringu að þetta væri allt einhverskonar samsæri milli fjölmiðla.


Fjölmiðlar sem voru inn í salnum lýstu því þó að Harry hafi orðið smá hissa að sjá þessi gögn frá lögfræðingi MGN og hafi beint sumum spurningum til lögfræðiteymis síns.


Lögfræðingur MGN gerði Harry alls ekki auðvelt fyrir, og sögðu fjölmiðlar sem voru á staðnum að Harry hafi oft orðið hissa á spurningum og ekki getað svarað spurningum. Harry hélt þó ávallt ró sinni og viðhélt þessum sjarma sem hann hefur. Dæmi um það er að í lok dagsins á þriðjudeginum sagði dómarinn við Harry að hann mætti alls ekki ræða málið við neinn, nema lögfræðing sinn, þangað til að hann mætti aftur í sal daginn eftir. Harry svaraði hvort það ætti líka við börnin sín þar sem hann myndi eflaust eiga myndsímtal við þau um kvöldið.


Lögfræðingur MGN benti Harry oft á að það vantaði algjörlega öll sönnunargögn, allar ásakanir hans séu bara pælingar og grunur. T.d. sagði lögfræðingur MGN að það vanti öll símagögn á bakvið margar ásakanirnar, að það séu ekki til gögn um að Harry hafi hringt í einhvern sem varð til þess að MGN hafi hakkað símann og fengið upplýsingar þannig. Blaðamenn inn í salnum lýstu því að Harry hafi virst hissa að þessu gögn væru ekki til. Hann hafi síðan haldið áfram að pæla í þessu í vitnastúkunni og kastað því fram að mögulega hafi síminn hans verið hakkaður á hverjum degi í 15 ár, en þó eru ekki til nein gögn sem sanna það.


Harry og Vilhjálmur


Díana og Paul Byrell

Eitt sem hefur vakið mikla athygli í vitnisburði Harry er um ósætti milli hans og Vilhjálms árið 2003 um hvort þeir ættu að fara að hitta Paul Burell, fyrrum bryta Díönu prinsessu, og fá hann til að hætta að tjá sig í fjölmiðlum. Harry vitnar í grein frá MGN sem fjallar um málið og vitnar í að Harry hafi kallað Paul Burell ljótu nafni. Harry segir að það sé rétt vitnað í hann í greininni og það sé ómögulegt að einhver hafi vitað þetta nema sími hans hafi verið hakkaður. Það sé það eina sem útskýrir að greinin noti nákvæmlega sama orðalag og hann notaði.

Það sem hefur vakið athygli að þetta er ekki í samræmi við það sem Harry skrifaði í bókinni sinni Spare. En þar segir hann að hann hafi viljað fara að hitta Paul. Lögfræðingur MGN spurði út í þetta og Harry svaraði þessu að margt í bókinni sinni var hann að ímynda sér hvernig hann hefði brugðist við á sínum tíma. Af því hann man ekki nákvæmlega hvað gerðist á sínum tíma. Sem dregur smá úr ásökuninni í málinu...


John Hewitt


Harry nefndi að sögusagnir um að John Hewitt væri í alvöru faðir hans hafi verið komið af stað til að hann passaði ekki inn í konungsfjölskylduna, væri ekki í alvöru hluti af henni. Hann viðurkenndi fyrir dómstólum að það var ekki fyrr en 2014 sem hann fékk að vita að móðir hans átti ekki í sambandi við John Hewitt fyrr en eftir að Harry fæddist.


Harry bendir á grein sem var birt árið 2002 sem sagði frá einhverskonar samsæri um að stela DNA sýni frá Harry til að sanna hver faðir hans væri. Þá var hann 18 ára gamall. Hann segir að hann hafi verið mjög sár yfir þessum fréttum og þær hafi orðið til mikillar vanlíðan. Hann hafi pælt í hvort þetta hafi verið gert til að hann yrði ekki hluti af konungsfjölskyldunni.

Þessi sögusögn um að John Hewitt sé alvöru faðir Harry hefur lifað lengi en er algjör uppspuni. Þeir eru þó sláandi líkir, en eins og Harry nefnir þá bara gengur tímalínan ekki upp. Díana og John Hewitt áttu ekki í ástarsambandi fyrr en eftir að Harry fæddist.


Harry og John Hewitt

Piers Morgan


Harry líka beinir ásökunum sínum að Piers Morgan, en hann var eitt sinn ritstjóri Daily Mirror (í eigu MGN). Harry vill meina að Piers Morgan hafi vitað af því að það væri verið að hakka síma og hafi tekið mikinn þátt í því. Piers Morgan hefur ávallt neitað að hafa vitað af þessum vinnubrögðum. Sem er samt ólíklegt miða við hversu hátt settur hann var hjá blaðinu. Flestir telja í dag að Piers hafi passað að hann vissi ekkert um málið sem ritstjóri, að enginn sagði honum hvaðan sumar upplýsingar komu o.fl. Þannig að hann gæti alltaf neitað vitneskju um þetta ef það kæmist upp.

Við vitum að Piers Morgan er ekki aðdáandi Harry og Meghan og hefur oft talað illa um þau. Harry sagði í vitnisburði sínum að honum yrði bókstaflega óglatt við að hugsa um að Piers Morgan hefði hlustað á talskilaboð sem mamma hans hefði gert.

Harry heldur því líka fram að Piers Morgan ráðist svona á hann og Meghan opinberlega útaf þessu máli, að þetta sé leið til að hræða þau til þess að þau þori ekki að kæra fjölmiðla.


Æskuárin


Harry heldur því fram að allt frá fæðingu hafi fjölmiðlar fjallað illa um hann, og að margar sögur hafi haft mikil áhrif á æsku hans.

Hann kemur með dæmi um grein frá 1996 sem var skrifuð um að hann væri í uppnámi um skilnað foreldra sinna. Hann segir greinin sé full af smáatriðum sem væri ómögulegt fyrir fjölmiðla að vita. Einnig væri engin ástæða fyrir því af hverju þessar upplýsingar væru í fréttablaði.

Annað dæmi er að árið 2002 hafi verið grein sem var skrifuð um að hann væri að nota kannabis meðan hann væri í Eton, og hann hafi verið mjög hræddur um að hann yrði rekinn úr skólanum útaf greininni. Þetta er allt mjög áhugavert þar sem við vitum eftir að hafa lesið Spare að hann var að nota vímuefni meðan hann var nemandi við Eton... En Harry bendir á hvernig hafi fjölmiðlar vitað þetta, og lögfræðingur MGN benti á að margir í Eton gætu mögulega hafa komið þessum upplýsingum í fjölmiðla.


Harry bendir líka á grein frá 1996 sem sagði frá því að móðir hans hefði heimsótt hann í skólann, en það væru upplýsingar sem hlytu að hafa verið náð með ólöglegum hætti. Lögfræðingar MGN bentu þó á að talsmaður Díönu hafi staðfest heimsóknina við Press Association tveimur dögum áður en hún átti sér stað og því var heimsóknin orðin almennar upplýsingar. Harry kannaðist ekki við þær upplýsingar.


Staðalímynd

Harry talar einnig um þessar staðalímynd sem hann talaði mikið um í Spare, að fjölmiðlar setji meðlimi konungsfjölskyldunnar í ákveðin hlutverk. Og að hann persónulega hafi byrjað að upplifa það þannig að hann gæti alveg eins bara verið í þessu hlutverki, og hagað sér eins og blöðin sögðu að hann væri að haga sér.

Hérna er hann að vitna í þessa ímynd sem blöðin hafa sett fram, að Harry sé heimskur og að hann sé partý prinsinn. Sé óþekkur og djammi helling. Harry talar um þetta í Spare, að hann hafi fundið fyrir ákveðni pressu frá pressunni um að haga sér svona að þetta hafi orðið vítahringur.



Ríkistjórn Bretlands

Harry gagnrýndi líka ríkisstjórn Bretlands og samband hennar við fjölmiðla í landinu. Er hann þar að gagnrýna hvernig ríkisstjórn Bretlands virðist leyfa fjölmiðlum að stjórna mikið hvernig er fjallað um ákveðin málefni og hvernig fjölmiðlum eru ekki sett nein mörk, en Harry hefur gagnrýnt það lengi. Einnig hlýtur þetta að vera skot á hvernig yfirvöld hafa tekið á þessu hökkunarmáli hingað til. En vissulega var gerð rannsókn og einhverjir nokkrir ákærðir, en samt sem áður má segja að þetta hafi að mestu verið sópað undir teppið. 

Það er samt erfitt að hunsa það að Harry er líka að kæra ríkisstjórnina vegna öryggismála sinna og því ekki mjög ánægður með yfirvöld. Á dögunum tapaði hann í því máli, en hann mun áfrýja þeim dómi fljótlega. Þar hafði lögreglan komin með þau rök að það sé ekki hægt að hafa fordæmi um að einhver með peninga geti pantað lögregluvernd, það væri ekki tilgangur lögreglunnar. Lögreglan verndar þá sem þurfa þess og metur sjálf hverjir það eru sem þurfa á vernd að halda. 

Harry mætti sem vitni í London í seinustu viku.


Í hættu

Harry sagði í réttarhöldunum að alla ævi hafi honum verið sagt að mamma hans hafi verið með ofsóknaræði, en nýlega hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Hún hafi einfaldlega verið hrædd um hvað gæti mögulega komið fyrir sig. Harry hafi byrjað að skilja þetta betur undanfarin ár þegar hann byrjaði að hafa áhyggjur af öryggi sinnar eigin fjölskyldu. 

Vilhjálmur hefur meira að segja sagt þetta opinberlega, að það hafi verið logið að henni og ýtt undir ranghugmyndir hennar um að það væri einhver á eftir henni. Þess vegna hafi hún t.d. neitað að fá öryggisverði í gegnum konungsfjölskylduna. 

Ein af greinunum sem Harry vitnar í er um hádegisverð sem hann átti þegar hann var að fagna 16 ára afmæli sínu. Hann segir að það hafi verið ómögulegt fyrir fjölmiðla að hafa vitað hvar og hvenær þessi hádegisverður yrði, en samt hafi ljósmyndarar verið mættir á staðinn. Lögfræðingur MGN benti á að það væru mjög margir sem gætu hafa látið fjölmiðla vita ef þau vissu að það væri von á honum, t.d. kokkur á veitingastaðnum sem greinar vitnuðu í eftir á. Harry dregur það í efa að það hafi verið rædd við kokkinn sjálfan og segir að hann hafi eflaust verið of upptekinn við störf sín til að hafa tíma til að hringja í fjölmiðla. 


Harry bendir einnig á að það sé engin ástæða fyrir MGN að birta fréttir um t.d. hvar hann átti hádegisverð þegar hann fagnaði 16 ára afmæli sínu og að fjölmiðillinn hafi ekkert hugsað út í hvaða áhrif þetta hefði fyrir öryggi hans og einkalíf að birta svona upplýsingar.

Harry sagði líka að hann áttaði sig á því að það yrði alltaf áhuga á lífi hans útaf stöðu hans, en hann ætti samt sem áður rétt á einkalífi. Hann sagði að þegar hann var starfandi meðlimur konungsfjölskyldunnar þá hafi aðeins um 5% af útgjöldum hans verið fjármagnað af skattpeningum, samt hafi pressan hagað sér eins og þau ættu rétt á að vita allt um hann og hans líf. Hvert hann færi og hvað hann væri að gera.

Harry sagði að blaðamenn slúðurblaðanna væru með blóð á höndum sér, þar sem að orð þeirra hafi orðið til þess að fólk tók sitt eigið líf. Hann sér þetta sem leið til að stoppa þessa hegðun. Hann segist samt ekki vera að þessu af því að hann hati slúðurblöðin heldur af því að hann vill að þessir fjölmiðlar taki ábyrgð á því sem þeir hafi gert.

  

Elísabet drottning

Harry segist hafa nýlega komist að því að Elísabet drottning hafi sent mann til að fylgjast með honum
þegar Harry var í Ástralíu eftir að hann kláraði Eton. Það hefði verið til að fylgjast með honum og passa að ekkert kæmi upp á. Hún hafði haft áhyggjur af því hvernig yrði fjallað um ferðina og vildi að það væri einhver nálægt sem Harry gæti treyst á. Aðilinn hafi leigt hús í sömu götu og Harry gisti og fylgst með málunum. Harry kom líklegast með þessa sögu til að sýna að fleiri höfðu áhyggjur af hvernig fjölmiðlar voru að fjalla um hann þegar hann var yngri. 


Umfjallanir um málið

Móðurbróðir Harry, Earl Spencer, hefur tjáð sig opinberlega um málið á Twitter og gagnrýndi þá að fólk væri að lesa umfjallanir um málið frá sömu fjölmiðlum og verið er að kæra. Hann vitnar í greinar frá t.d. Daily Mail sem hafa tekið fyrir rök Harry og rætt þau. Sagan sem hann vitnaði í er Daily Mail að spekúlera hvort að Harry sé með Chelsy Davy á heilanum þar sem hún kemur svo oft fram í sönnunargögnum Harry. 

Þetta er mjög góður punktur, og eitthvað sem er gott að hafa í huga þegar við lesum fréttir um þetta mál. Vissulega er hægt að setja spurningarmerki við margt sem Harry heldur fram og það virðist líka vera rétt að margt sem Harry heldur fram er meira bara pælingar hans og lögfræðinga hans, ágiskanir um að  upplýsingum hafi verið aflað ólöglega frekar en að vera með sönnunargögn um að það hafi gerst. Það hjálpar líka ekki málinu að Harry man ekki vel eftir æskuárunum og hefur játað það opinberlega og í bók. Því er erfitt að trúa öllu sem hann segir um þennan tíma. 

Samt sem áður hef ég lesið greinar frá t.d. BBC sem telja líklegt að Harry muni vinna málið. En við verðum að bíða eftir niðurstóðum dómsins en málið heldur áfram í næstu viku. 

Mín lokaorð

Harry segist hafa farið af stað með málið til að vernda konuna sína. Þó er samt erfitt að horfa framhjá því að allt sem hann talar um í málinu er eitthvað sem gerðist löngu áður en Meghan kom til sögunnar, en fær mann til að spyrja hvort að þetta sé kannski bara byrjunin. Ef Harry vinnur þetta mál, hvort hann kæri fleiri eftir þetta. Mögulega Piers Morgan sjálfan?

Þetta mál hefur núna verið talsvert tekið fyrir á árinu hefur komið fram að höllin hafi hreinlega bannað Harry að kæra þetta og það var ekki fyrr en Harry hætti sem starfandi meðlimur sem hann fékk frelsið til að gera þetta. Harry vill meina að höllin hafi verið að skipuleggja að semja við fjölmiðlasamsteypunnar bakvið luktar dyr og því ekki viljað leyfa Harry að gera neitt. Þetta hafi allt verið gert til að gera ekki mikið úr málinu opinberlega. Lögfræðingar Harry halda því fram að Vilhjálmur hafi náð sáttum við fjölmiðlasamsteypu sem stundaði hakkanir og fengið háa upphæð fyrir. Ef það er satt, þá sýnir það ennþá meira hvað þeir bræður eru ólíkir.