Spencer: Mín gagnrýni

 Á dögunum horfði ég á Spencer kvikmyndina, en myndin er komin inn á einhverjar streymisveitur og er sýnd í kvikmyndahúsum. Hún hefur hingað til fengið mjög góða dóma erlendis en virðist samt ekki vera vinsæl. Held að hún verði vinsælari ef hún vinnur til einhverja verðlauna á nýja árinu. En myndin er augljóslega gerð til að verða verðlaunamynd, það er mikið um löng atriði þar sem leikararnir fá að njóta sín, það eru vandaðir búningar og mikið lagt upp úr því hvernig hún er tekin upp.

Í stuttu máli þá fjallar myndin um þann tíma sem Díana er að fá nóg af því að vera gift Karli og hlutverki sínu innan konungsfjölskyldunnar. Myndin er skáldskapur og ímyndar sér að Díana hafi í raun tekið þá ákvörðun um að skilja við Karl jólin 1991 meðan fjölskyldan er í Sandringham. 

Myndin er alvarleg, hæg og oft á tíðum langdregin, en hún er vel gerð og vel leikin. Hérna eru nokkrar hugleiðingar mínar eftir að hafa horft á myndina:

- Ég mæli með að hækka vel þegar horft er á myndina, Kristen Stewart, þó hún leiki Díönu vel, þá fannst mér hún alltaf vera hvíslandi... Fannst mikið um hvísl samræður og bara störukeppnir. 

- Fannst vanta að myndin gæfi smá samhengi, en það er eins og það sé ætlast til að áhorfendur viti hverjir allir eru, hvar þau eru og hvað sé að gerast. 

- Perluatriði hefur vakið mikla athygli, og það er hreinlega stórfurðulegt. Ég átti erfttt með að átta mig á af hverju hún var að borða þær, þó að þær séu gott tákn um stöðu Díönu í öðrum atriðum. 

- Algjört smáatriði, en það böggar mig hvað trúlofunarhringurinn er ekki dökkblár. Kannski eitthvað lýsingin á myndinni en hann virðist vera alltof ljós. Miða við hvað allt annað er flott í myndinni finnst mér þetta sérstakt. 

- Eins mikið og það þarf að hækka hljóðið í flestum atriðum þá þurfti ég að lækka vel þegar kom að æluatriðunum...

- Anne Boleyn samanburðurinn er stórfurðulegur, aftur þá er ekki mikið útskýrt í kringum það, en fannst skrítið að bera saman Díönu við Anne Boleyn þar sem Anne Boleyn var ein af ástæðunum þess að Henry 8. skildi við fyrstu eiginkonu sína. Þær Anne Boleyn og Kamilla eiga kannski meira samaeiginlegt heldur en AB og Díana. 

- Atriðið fyrir framan kirkjuna eftir jólamessuna með ljósmyndurunum minnir mikið á orð Harry úr heimildamyndinni um heimsókn hans og Meghan til Suður Afríku. En þar talaði hann um kvíðann sem hann finnur fyrir þegar hann er umkringdur ljósmyndurum.

- Finnst flott hvernig er sýnt sjónarhlið starfsfólksins, sem hefur oriðið vitni að stormasömu sambandi Karls og Díönu og þurft að horfa á án þess að skipta sér af. 

- Ómögulegt fyrir okkur að vita hvernig þetta var hjá Díönu, en vitum að henni leið mjög illa. Í myndinni talar hún um að hún upplifi eins og hún sé í fangelsi. Þetta minnir mikið á orð Meghan í Oprah viðtalinu fyrr á árinu, og spurning hvort að saga Harry og Meghan hafi verið notað til hliðsjónar fyrir handritið. 

- Fannst frekar dramatískt að myndin ímyndi sér hvað þjónarnir voru mikið að stjórnast í Díönu, og bara hreinlega leggja hana í einelti. Myndi frekar trúa að þau hefðu verið að hjálpa henni, en kannski svona gamaldags fólk sem vill fara eftir reglunum. Fannst mjög dramatískt þegar það var búið að hefta saman gluggatjöldin...

- Hef aldrei pælt í því hvernig strákarnir hafa upplifað framhjáhaldið, og hvernig þeir hafa upplifað Kamillu í gegnum árin. En þeir hafa eflaust hitta hana á viðburðum og í veislum þegar þeir voru yngri. En spurning hvort þeir hafi vitað hvað var í gangi?

- Myndin sýnir vel hvað Vilhjálmur var mikill trúnaðarvinur Díönu, hann er mikið að passa upp á hana og vernda hana. Hann virðist vera meðvitaður um ástand hennar og stöðu. Og hún treystir honum fyrir hvernig henni líður.

- Fannst skemmtilegustu atriðin í myndinni vera á milli Díönu, Harry og Vilhjálms. Þar sést hún afslöppuð og, já hún sjálf. 

- Gaman að sjá Díönu fara með strákanna á KFC en það er þekkt að hún fór oft með þá á skyndibitastaði, en hef frekar heyrt að þau hafi farið á McDonalds. 

Vilhjálmur að kíkja á KFC í október 2020.

Til að taka þetta allt saman þá er myndin frekar þung og leiðinleg í áhorfi, en vissulega metnaðarfull og vel gerð. En fer kannski full langt í að lýsa hugarástandi Díönu, en mörg atriðin eru skrítin og átakanleg. Fannst skemmtilegast að sjá hana með strákunum sínum þó svo að þau hafi verið smá skrítin líka. Myndin samt nær frekar vel jólunum í Sandringham, þar er mikið um fataskipti og mikið um skrítnar og gamlar hefðir (það er í alvörunni hefð að vigta gestina við komu). 

Og ekki má gleyma að búningarnir eru gullfallegir í myndinni (allt nema guli hatturinn!). 



Hérna er mynd af Díönu og Harry að ganga frá jólamessunni 1991.