The Crown - Sería 5

 The Crown - Sería 5 (2022)

Fimmta serían af The Crown er núna komin inn á Netflix og hér fyrir neðan verða mínar pælingar og smá umfjöllun um hvern þátt.  

Allir þættir komnir en færslan er í vinnslu.

5x01: Snekkjur og rifrildi

The Crown er búið að vera umdeilt undanfarnar vikur, og fyrstu dómar hafa gagnrýnt seríuna vegna hversu mikill skáldskapur þættirnir eru þegar margir trúa því að allt sem gerist í The Crown sé rétt og satt. En tímabilið sem er fjallað um í þessari seríu er án efa það dramatískasta á valdatíð Elísabetar þannig það þarf í raun lítið að skálda til að búa til gott drama...

Ég var með skrítnar væntingar fyrir þessa seríu og átti kannski von á verri þætti en fyrsti þátturinn var. Var búin að heyra að það yrði fjallað um að Karl hafi reynt að "stela krúnunni" og það er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt. Mér fannst hinsvegar farið frekar lúmskt í þetta, að Karl bara svona kurteisilega bendir á hvað væri hægt að breyta. Alltaf í einkasamræðum sem er erfitt að segja til um hvort hafi átt sér stað eða ekki. 

Það sem stóð upp úr þessum þætti og verður eflaust mikið sýnt í þessari seríu, er hversu mikið Vilhjálmur og Harry eru andlegur stuðningur fyrir Díönu. Þeir koma henni til varnar og eru alltaf að passa upp á hana. Fannst mjög flott atriðið þegar Karl og Díana eru að rífast um að fara fyrr heim frá Ítalíu, við sem áhorfendur heyrum þau rífast, en ekki hvað þau segja. Ég hugsaði að þetta væri eflaust hvernig var fyrir Vilhjálm og Harry að upplifa þetta, en rétt fyrir atriðið er Vilhjálmur sýndur fylgjast grannt með samræðum foreldra sinna. Þetta hefur lengi verið haldið fram að t.d. Vilhjálmur hafi verið einskonar trúnaðarvinur Díönu og hún hafi oft rætt við hann um hvað væri erfitt hjá henni. Takið líka eftir hvernig Vilhjálmur er kominn í fangið á Díönu í atriðinu næst á eftir. 

Britannica er líka mikið í þessum þætti. Konunlega snekkjan sem var mikið notuð. Þó svo að Elísabet haldi öðru fram í þættinum, þá var þessi snekkja mikill lúxus fyrir konungsfjölskylduna og var mikið notuð af þeim, enda upplifðu þau mikið frelsi þar um borð. Því miður er þessi snekkja ekki ennþá í notkun en það er samt hægt að heimsækja hana í Edinborg (mæli með!). Ef ég man rétt þá var mikið drama yfir þessum kostnaði þannig þetta er eflaust söguþráður sem mun halda áfram næstu þætti.



Mér fannst mjög gaman að sjá þau fá öll dagblöð send á skipið á hverjum degi. Ekkert hægt að taka sér frí frá fréttunum. Þátturinn leggur líka áherslu á hversu mikið samband er þarna á milli, hallarinnar og fjölmiðla. Höllin "lekur" upplýsingum til blaðamanna og fær í staðinn að vita af greinum fyrirfram, eða fær að segja til um hvernig greinar eru skrifaðar. Eins og heimildaþættir BBC greindu frá í fyrra þá er þetta ennþá mikið gert í dag. 

Það eru komnir nýjir leikarar í öll hlutverk, og mér finnst alltaf taka 2-3 þætti að venjast þeim, en sú sem leikur Önnu prinsessu nær henni svo ótrúlega vel! Fannst hún algjört æði, og fannst söguþráður Önnu íþessum þætti frábær. Elísabet nefnir að hún er að koma, og starfsfólkið er með áhyggjur af rigningunni og Elísabet segir að það muni ekki skipta hana neinu, enda er Anna algjör nagli. Og fannst leikkonan ná vel töktunum sem Anna hefur. Síðan var gaman að það var sýnt þessi mikli áhugi Önnu á vitum, en það er ekkert svo langt síðan að ég komst að því sjálf. Fannst líka gaman að sjá hvað Anna og Elísabet eru nánar og gerðu mikið saman, varð einmitt hugsaði til þess að Anna var hjá Elísabetu áður en Elísabet dó. 

Hinsvegar, er ég nú ekki svo viss um að þetta hafi verið svona einfalt, að Anna hafi valið sér nýjan eiginmann með kíki! En Timothy, sem er eiginmaður hennar í dag, kynntist Önnu þó þegar hann var að vinna fyrir Elísabetu og á þeim tíma sem fyrra hjónaband Önnu var að detta í sundur, og svona ekki alveg opinbert hvernig þetta gerðist allt saman.Verður áhugavert að sjá þetta þróast.


Robert Fellowes kom þarna fram sem aðstoðarmaður drottningarinnar, og er t.d. að passa að hún sjái ekki forsíðu The Sunday Times. En áhugavert að segja frá því að hann var mágur Díönu, er giftur Jane systur hennar (enn á lífi og ennþá gift). 

Það er smá skrítið að horfa á Karl vera að reyna að verða konungur þegar hann er orðinn það í dag. En fannst samt leikarinn ná Karli vel, þessar miklu heimspekilegu pælingar sem hann hefur og líka hann nær þessum mumbl-talanda sem Karl hefur! En er ég ein um að finnast vera ansi mikill hæðarmunur á leikurunum sem leika Karl og Díönu?

Ghillies-ballið! Mjög gaman að sjá það og var flott að nota það til að kynna leikarana sem leika aðra meðlimi, eins og Margréti og drottningarmóðurina. Sarah Ferguson sést líka í bakgrunn. En þetta er árleg hefð sem er í Balmoral og gaman að sjá hversu nákvæmir búningarnir voru. Ýtið hér til að sjá smá myndband af ballinu sem var í alvöru. 

Mér fannst endirinn góður, var einmitt búin að pæla í því að greyið forsætisráðherrann þyrfti að díla við allt þetta fjölskyldudrama! Og lokaorð hans í þættinum setja tóninn fyrir restina af seríunni, en þetta tímabil er ansi klikkað. 

Næstu umfjallir verða eflaust ekki svona langar! En vá hvað það er gaman að það er komin ný sería og hlakka til að deila með ykkur fleiri pælingum. 

5x02: Leyniupptökur og hestvagnar

Ég var lengi að pæla í þessum þætti hver þessi vinur hennar Díönu væri, fannst ég kannast við nafnið en kveikti ekkert á perunni. En hann er aðallega þekktur fyrir að hafa verið góður vinur Díönu og einmitt hjálpað henni að koma upplýsingum til Andrew Morton. James kynntist Díönu áður en hún giftist Karli meðan hún vann sem barnfóstra í London. Ef þið kannist við nafnið eins og ég, þá er það vegna þess að hann hefur komið fram í heimildamyndum og þáttum í Díönu og talað um vináttu sína við hana. 

Fókusinn í þættinum er bókin eftir Andrew Morton. Mér fannst þátturinn samt láta Andew líta frekar creepy út, hvernig hann kynnist James og svona platar hann til að sannfæra Díönu um að segja honum frá. Þegar leið á þáttinn fannst mér samt eins og hann vildi reyna að hálpa henni. Þetta er samt rétt, Andrew vingaðist við James og hafði þannig samband við Díönu. James hjálpaði henni að taka upp og koma upptökunum til Andrew. Bókin var, og er, gífurlega vinsæl og var gefin út á íslensku 1992, sem er sama ár og bókin kom út. Það er magnað að lesa bókina og sögu Díönu, líka þegar maður veit að hún sjálf er á bakvið hana. Ég skil reyndar ekkert hvernig þau héldu að þau kæmust upp með að fela það að Díana hefði komið nálægt bókinni, þar sem það er svo margt í henni sem bara Díana myndi vita. En algjör snilld að sýna að Andrew gat komið fram og sagt "I did not interview the princess" þar sem hann tók hana vissulega aldrei í viðtal og hitti hana ekki einu sinni. 

Meðan ég horfði á þáttinn pældi ég í því hvernig Díana gat opnað sig svona mikið, vitandi að þetta yrði gert opinbert. En hugsaði svo að mögulega var þetta ákveðin sálfræðimeðferð fyrir hana, hún er heima hjá sér að segja sína sögu í fyrsta skipti og það fékk hana kannski bara til að segja allt. En bókin er án efa ein besta heimild sem við höfum í dag um Díönu og hennar upplifun á því að giftast inn í konungsfjölskylduna. 




Þessi sería ætlar síðan að tækla ofsóknarbrjálæðið sem Díana þjáðist af, en Vilhjálmur hefur talað um þetta og hversu slæmt það var. Við sjáum Díönu tala um að það sé einhver að hlusta á símtölin hennar, og hún er sannfærð um einhver hafi ætlað að keyra á James. Mér fannst sniðugt hvernig þátturinn sýnir að þetta gæti verið möguleiki en staðfestir ekki neitt. Leyfir í raun áhorfendanum að pæla í þessu með Díönu. En í fyrra var rannsakað t.d. hvernig Díana var fengin til að mæta í Panorama viðtalið, sem verður tekið fyrir í þessari seríu, og skýrslan sem var birt staðfesti að þetta var allt uppspuni. Hérna er verið að ýta undir dramað, en samt á sama tíma að sýna okkur hvernig Díana gæti hafa upplifað þetta. 

Filippus
Eitt af því sem fimmta serían hefur verið gagnrýnt er það nota dauða Leonara Knatchbull sem söguþráð. Við sáum hana í fyrsta þættinum þar sem er sagt frá að hún væri veik af krabbameini. Gagnrýnin er að þarna er verið að nota sögu fjölskyldunnar einhvern veginn til að ýta undir söguþráð sem á að gefa í skyn að Filippus hafi haldið framhjá (held að serían sé að fara þangað byggt á þessum þætti). En þetta er notað til að sýna hvernig Filippusar og Penny Knatchbull urðu vinir. Penny er með titilinn Countess Mountbatten of Burma og er gift Norton Knatchbull sem er skyldur konungsfjölskyldunni. Ég þekki ekki til hvernig hún og Filippus urðu vinir í alvörunni en þau voru mjög náin og Penny var ein af þeim fáu sem fengu að mæta í jarðarför Filippusar í fyrra. 

Þau voru aðallega vinir í gegnum þetta sameiginlega áhugamál þeirra: kappakstur hestvagna. Eins og sást í byrjun er þetta ansi hröð íþrótt og kemur frekar spánskt fyrir sjónir, eins og svo margt annað sem aðallinn í Bretlandi gerir. Hér er hægt að sjá Filippus tala um íþróttina (minnir mikið á viðtalið í byrjun þáttarins) og augljóst hvað hann hafði mikinn áhuga á þessu. 

Það eru til margar kenningar um það hvort Filippus hafi haldið framhjá, og margir hafa reynt að komast að hvort það sé eitthvað til í því, en engum hefur tekist að staðfesta neinar sögur eða orðróma. Blaðamenn hafa náð viðtali við konur sem eru sagðar hafa átt í sambandi við hann, en allar neita því. The Crown fer fínt í þetta og gefur oft í skyn að það sé eitthvað í gangi sem er ósagt, en ekki meira en það. En þannig var þetta, og er, það eru til margar kenningar en ekkert vitað fyrir víst. 


Mér fannst atriðið í lokin mjög flott, hefur alltaf þótt krúttlegt hvernig þættirnir ímynda sér að Díana og Filippus hafi átt þessa tengingu vegna þess að þau giftust bæði inn í konungsfjölskylduna. Filippus er líka á fullu þessa seríuna að vernda sína konu og stofnunina, sem er hlutverk hans í þessu öllu saman. Hann minnir Díönu á að það er opinbera ímyndin sem skiptir höfuðmáli og það megi ekki vera að byrja stríð í fjölmiðlum með því að vera að deila ágreiningi sem er í gangi á milli meðlima. Ég er varla sú eina sem hugsaði um Harry og Meghan í þessu atriði?

Áhugaverðir punktar:
- Díana segir frá hjónabandi foreldra sinna og hversu slæmt það var, og að pabbi hennar hafi aldrei talað um það og reynt kannski að fela það. Kannski handritshöfundarnir að ýta undir að þetta gæti verið ástæðan hvað Díana sagði Vilhálmi og Harry mikið frá?
- Í lokaatriðinu sjáum við Díönu með The Cambridge Knot Tiara sem hún var oft með, en það er eina kórónana sem Katrín hefur notað hingað til, fyrir utan kórónuna sem hún var með á brúðkaupsdaginn. 





5x03: Stærsti aðdándi breska aðalsins


Jii, þessi var lengi að byrja. The Crown gerir þetta stundum, byrjar á svaka söguþræði og áhorfandinn er smá týndur og svo bara búmm þetta er tengingin við konungsfjölskylduna, sem í þessum þætti er fæðing Dodi. 

Ég mun seint skilja hvaðan The Crown fær þá hugmynd að hertogahjónin af Windsor hafi verið svaka hamingjusöm hjón og hafi verið svona ástúðleg. Allt sem ég hef lesið gefur til kynna að þau hafi verið góðir vinir, en ekki átt mjög gott hjónaband. Finnst þau alltaf svona aðeins og ástúðlega gagnvart hvort öðru í atriðum í The Crown, en ástæðan er örugglega sú að það tæki of langan tíma að fara út í hversu flókið sambandið þeirra var. Því miður er mikið til í því sem þátturinn segir um endalok Wallis Simpson, eftir dauða hertogans bjó hún ein og veiktist mikið. Hún gat ekki talað og varla neinn sem heimsótti hana. Og til að bæta ofan á það, þá var lögmaður sem sá um fjármál hennar og sá lögmaður seldi vinum sínum fullt af eignum hennar á lítinn pening. Hræðilegur endir. 

Þátturinn fer inn á rasismann sem var, og eflaust er, innan aðallífsins. Þetta sést á sögu Sidney Johnson. Hvernig Mohammed ætlar að henda honum út úr veislunni þangað til hann kemst að því hver saga hans er, og svo þegar þeir eru að fara á veðreiðarnar. Elísabet er nú líka ansi dónaleg í þessum þætti og neitar að hitta Mohammed, eða sitja hjá honum. 

Annars byrjaði mér að þykja ansi vænt um Sidney í þessum þætti, áhugavert að sjá svona mikla vináttu verða til á milli hans og Mohammed. Netflix hefur búið til flott innslag um Sidney sem er áhugavert að horfa á (hér). Mér fannst saga hans hvað áhugaverðugust í þessum þætti. Í myndbandinu frá Netflix er líka farið dýpra í söguþráðinn sem tengist honum og t.d. nefnt að foreldrar Díönu mættu í partýið sem var haldið þegar búið var að gera upp villuna 'Villa Windsor'. 

Atriðið með Mohammed og Díönu sýnir hversu ótrúlega góða samskiptahæfileika Díana hafði. Hún virðist hafa getað talað við hvern sem er og látið fólki líða vel. Þetta er ekki eina atriðið sem sýnir þetta og ég tel að þetta sé ein af ástæðunum af hverju hún var svona ótrúlega mikið elskuð. Allir sem hana hittu sögðu sögu um konu sem tók sér tíma til að spjalla og eins og hún hefði mikinn áhuga á því sem fólk hafði að segja. 

Annars náði þessi þáttur mér ekki mikið, ég reyndar náði ekki að horfa á hann frá upphafi til endis, þurfti að stopppa og klára seinna. Gæti haft eitthvað með það að gera. 


5x04: Hræðilegt ár


Brúðkaup Önnu og Tim
Ég var spennt fyrir þessum þætti, enda átti ég von á að hann yrði eingöngu um árið 1992 og allt sem gerðist þá. Kom á óvart hversu mikið þátturinn fjallaði um Peter Townsend og Margréti. The Crown virðist ætla að halda áfram að gera mikið úr ástarsamböndum en það sem áður hefur verið talið, líkt og með hertogahjónin af Windsor. The Crown sýnir að Margréti hafi verið bannað að giftast Peter og að hún hafi ekki mátt neitt. En bréf Margrétar frá þessum tíma sýna að hún var ákveðin í að fá að taka þessa ákvörðun sjálf, og hún valdi að halda sínum titli og giftast honum ekki. Mögulega hefði hún ákveðið annað það hefði ekki verið búið að segja henni að hún þyrft í raun að velja konungslífið eða Peter. En það var ekki bara Elísabet sem setti henni þessa valkosti, heldur var það líka þingið. Mér finnst Margrét í þáttunum, vera mjög bitur manneskja. Mikil vanlíðan og svo ótrúlega hjálparvana eitthvað, verið að ýta undir "the spare" söguþráðinn. 

En þetta speglast vel við söguþráð Önnu, að Anna fái að giftast aftur þó hún sé skilin. Mjög áhugvert að Timothy og Lawrence voru í sama starfi þegar þeir urðu ástfangnir af prinsessum. En þeir eru í sama starfi og Major Tim er í núna fyrir Karl, ef einhverjir muna hver það er. En þessi staða er eins og aðstoðarmaður konungs/drottningar. Sér um að skipuleggja dagbókina og að allt haldist á áætlun. 

Ég dýrka leikkonuna sem leikur Önnu, finnst hún ná henni svo vel. En spyr mig af hverju við höfum ekki fengið að sjá meira af sambandi hennar og Tim í þáttunum. Bara einn koss þarna, sem ég trúi alveg upp á Önnu. Að hafa verið svona staðráðin í að láta fólk ekki slúðra um sig. Spyr mig samt hvort það sé til að móðga ekki Önnu sjálfa í dag...?

Skilnaður Andrew og Fergie er þarna líka bara smá í bakgrunn, reyndar ótrúlegt að þessu öllu hafi verið troðið í einn þátt. En vá það var fáránlegt að horfa á þau mæðginin grínast með framhjáhald Fergie, og fær mig til að pæla hvernig þau hafa rætt skandala Andrews undanfarin ár… Þessi þáttur sýnir líka hvernig hún gerir upp á milli barnanna. Anna er samt svo ákveðin að hún tilkynnir mömmu sinni bara hvað hún ætli að gera og ekkert vesen. En Karl þarf að grátbiðja mömmu sína um að fá að skilja við Díönu. Það vita allir og amma þeirra að hjónaband Díönu og Karls var hræðilegt, en Elísabet er bara "nei þið verðið nú bara að reyna að vera vinir." 


Mér finnst leikaravalið fyrir Margréti og drottningarmóðurina ekkert vera frábært þessa seríuna… Finnst einhvern veginn Margrét virka yngri en hún var í seinustu seríu og ég er næstum alltaf að gleyma hver þetta er þegar drottningarmóðirin er á skjánum…
 
Drottningarmóðirin og Margrét prinsessa.


Fillipus kemur sterkur inn í lok þáttarins til varnar Elísabetu. En drottningarmóðirin varð 102 ára, og eins og sést í atriðinu virðist hún hafa greiðan aðgang að öllu. Búin að lesa ræðuna og allt fyrir, veit að Elísabet er með hita. Kannski erfitt að vera að reyna að nútímavæði konungsfjölskylduna þegar mamma er alltaf að minna á hvernig þetta á að vera.

Samræðurnar í lokin milli systranna eru mjög krúttlegar, en það hlýtur að vera erfitt að vera með óplannaðar samverustundir þar sem svo mikið hjá þeim er skipulagt marga mánuði fram í tímann.

Mér fannst allt of mikið sett í þennan eina þátt, bara hent fram upplýsingu og atburðum sem hefði mátt fjalla meira um. Það er svo margt sem gerðist þetta ár og ótrúlegt að fara í það á svona stuttum tíma, sérstaklega þar sem þátturinn fjallar að mesu leiti um Margréti og hennar eftirsjá.


5x05: Kóngatal


Þessi þáttur er mjög áhugverður. Þátturinn er að mestu um samband Karls og Kamillu og mér finnst hann sýna Karl í frekar góðu ljósi. 

Karl og Kamilla hafa verið lengi saman og mér finnst samtalið þeirra í byrjun þáttarins sýna að Kamilla hefur í raun verið eiginkona Karls miklu lengur en þau hafa verið gift. Hún er þarna að sýna honum stuðning og ráðleggja honum, eins og Filippus gerir fyrir Elísabetu í þáttunum. En vá hvað það var vandræðalegt að sjá hana fara frá fjölskyldunni til að taka símann. Getur ekki verið auðvelt að vera barn hennar, þar sem allir vita í raun hvað gekk á. Kamilla á tvö börn, Laura og Tom. Þau sjást sjaldan opinberlega en hér er mynd af þeim frá brúðkaupi Karls og Kamillu 2005:

Þátturinn tekur líka fyrir upptöku sem voru gerðar á símtali milli Karls og Kamillu. Það sem er sýnt í þættinum er mjög svipað alvöru upptökunni, margt sem er orðrétt. En þessar upptökur voru mikill skandall á sínum tíma og orðsport Karls var mjög slæmt eftir þetta. Sem er ein af ástæðunum að ákveðið var að gera heimildamynd um hann og að hann færi í persónulegt viðtal. Hægt að horfa á klippu úr viðtalinu hér. Myndin var til að bæta orðspor prinsins.




Í þessum þætti koma fram hugmyndir Karls um konungsfjölskylduna og áhugavert að velta þessu fyrir sér þar sem hann er núna orðinn konungur. Það hefur verið þekkt lengi að hann vill fækka þeim sem eru starfandi meðlimir, ekki vera með fullt af frænkum og frændum sem sinna opinberum skyldum. Heldur að þetta sé lítill hópur sem allir vita hverjir eru, og þannig líka minnka kostnaðinn við konungsfjölskylduna. Eitthvað sem við hofum t.d. séð að hefur verið gert á norðurlöndunum. Í dag sjáum við að Karl hefur ekki gert börn Harry að prins og prinsessu, eins og þau eiga núna rétt á sem barnabörn konungs, en þetta er eflaust vegna þess að þau munu aldrei verða starfandi meðlimir konungsfjölskyldunnar. 

Það vakti mikla athygli á sínum tíma að Karl vildi verða "defender of faith" en ekki "defender of the faith" og mörgum sem leist ekkert á það. Þetta er lítil breyting en hefur mikla merkingu og kemur í ljóst á næsta ári hvort hann muni standa við þetta. Mér finnst það líklegt. En ég held líka að samfélagið sé búið að breytast töluvert síðan hann nefndi þetta fyrst og að flestum finnist þetta eðlileg breyting í dag á eiðnum. 

Í þessum þætti sjáum við líka endann á hjónabandi Kamillu og Andrew. En í alvörunni skildu þau árið 1995. Viðtalið sem Karl fór í var árið 1994. The Crown hafa margoft farið aðeins frjálslega með raunverulegu tímalínuna, og sett saman viðburði af því það hjálpar sögunni betur. 

En það er samt rétt að Díana klæddist "hefndarkjólnum" sínum, sem fór á allar forsíður blaðanna daginn eftir, sama kvöld og heimildamyndin um Karl kom út. Þannig að fjölmiðlar fjölluðu minna um heimildamyndina um Karl, meira um kjólinn hennar Díönu. Þættirnir sýna að þetta var meðvituð ákvörðun hjá Díönu og hún valdi kjólinn til að vekja athygli, sem margir trúa. Kjóllinn er oft notaður sem dæmi um hvernig tískan, sérstaklega hjá konungsfólki, getur haft mikil áhrif og hvernig það er hægt að lesa meira í fatnaðinn. 

Mér fannst mjög krúttlegt í lokin að sjá atriðið milli Önnu og Karls. Þau virðast alltaf vera mjög náin og góðir vinir og fannst flott að fá atriði sem sýna þau sem systkin. Anna kemur sérstaklega til að athuga hvort að það sé í lagi með Karl, en er samt mjög hreinskilin við hann. Líka gaman að sjá hvernig hún virðist verja hann gegn fjölskyldunni.


5x06: Ég er drottning.

Þessi þáttur fannst mér byrja ansi svakalega. Tók mig smá stund að átta mig á hvað væri verið að fjalla um. Byrjunaratriðið er mjög átakanlegt og það er satt að breska konungsfjölskyldan kaus að hjálpa ekki þeirri rússnesku þrátt fyrir að vera náskyld þeim. 

Georg V, afi Elísabet og sá sem er talinn hafa byrjað að kalla hana Lilibet, var konungur frá árinu 1910-1936. Í byrjun þáttarins sjáum við hann með páfagauk á öxlinni, en þetta var gæludýrið hans og var kallaður Charlotte. Hann var víst oft með hana á öxlinni þegar hann var að vinna. 

Eiginkona Georgs var Mary, sem við sáum í fyrstu seríunum af The Crown. Hún var fyrst trúlofuð bróður Georgs, sem þá var prinsinn af Wales (Albert) en hann dó skyndilega og Mary trúlofaðist seinna Georg. Sagan um afbrýðisemi og keppni milli hennar og Alexöndru keisaraynju er ein kenning um hvað varð til þess að breska konungsfjölskyldan hjálpaði ekki keisarafjölskyldunni að flýja Rússland, þrátt fyrir að hafa leyfi yfirvalda til þess. Ekkert af þessu er í raun staðfest en það eru margar sögur um það að frænkunum, Mary og Alexöndru hafi ekki komið vel saman og því ert oft kennt um hvernig persóna Alexandra var. Hún á að hafa talið sig betri en aðra og kom ill fram við fjölskyldu og vini. En saga Mary sýnir okkur líka að hún var mjög ákveðin kona og trúföst, hún t.d. stóð fast á bakvið föður Elísabetar þegar hann varð konungur og fyrirgaf aldrei Edward elsta syni sínum það að hafa gefið upp krúnuna. 

Mary drottning í alvörunni og í The Crown.


Í þessum þætti kemur fram hversu ólíkir einstaklingar Elísabet og Filippus voru. Sýnir líka hvað þau hafa þroskast í sitthvora áttina, enda eru þau að fagna 47 ára brúðkaupsafmæli í þættinum, sem er ansi langur tími. Filippus er sýndur hafa mikinn áhuga á vísindum og hafa allar nýjustu rannsóknir á hreinu, meðan Elísabet er sýnd vera frekar ómenntuð.

Samt er Elísabet sýnd vera með aðra kosti sem eru hennar styrkleiki og einn er sá að hún er nokkuð ákveðin. Mér finnst alltaf gaman að sjá þegar hún kemur sínum svona fram á kurteisan en ákveðin hátt. Bæði við forseta Rússlands og vinkonu Filippusar. Þó hún sé mjög passív þá lætur hún engann vaða yfir sig og er snögg að sýna fólki hver staða þess er í návist hennar. 

Finnst pínu leiðinlegt hvað þessi sería er mkið að einblína á hvað konungsfjölskyldan er erfið og hræðileg. Visslega fjallar þessi sería um frekar erfiðan tíma þar sem margt neikvætt gerðist en finnst þessi sería samt vera einhvern veginn neikvæðari en fyrri seríur. Finnst vera minna um jákvæð atriði eða skemmtilegar sögur.

Skemmtileg staðreynd - í þættinum sjáum við frá jólunum í Sandringham og þar sést Díana í rauðri kápu. Þetta voru seinustu jólin sem Díana var með í Sandringham og þessi sömu jól eru viðvangsefni Spencer myndarinnar. 


5x07: Lygar og falsfréttir

Þessi þáttur byrjar á viðvörun vegna ofbeldis, og það kom mér á óvart þar sem The Crown eru ekki þættir sem sýna mikið ofbeldi...

Hér kemur Bashir til sögunnar og þannig verið að byrja að kynna til sögunnar hvað gerðist með Panorama viðtalið. Ég var mjög spennt að sjá The Crown taka þetta fyrir þar sem það hefur margt nýtt komið fram undanfarin ár.

Vilhjálmur er nokkuð stór hluti af þessum þætti, og í raun þessari seríu. Við sjáum hann vera að byrja í Eton heimavistunarskólanum sem er í Windsor. Við sjáum svo að hann fer í heimsókn til ömmu sinnar og er að kenna henni, og langömmu sinni, t.d. á sjónvarpið. Þetta er alveg rétt, það er vitað að Vilhjálmur fór á næstum hverjum sunnudegi í heimsókn í Windsorkastala og var þar með ömmnu sinni og afa. Það er líka talið að Elísabet hafi með þessum heimsóknum unnið að því að undirbúa Vilhjálm fyrir sitt framtíðarhlutverk, sýnt honum hvað felst í því að vera þjóðhöfðingi og rætt við hann um starfið. Þessi tími á líka að hafa gert þau Vilhjálm og Elísabetu nokkuð náin. Annars minnir persóna Vilhjálms í þessum þætti mig mikið á Georg, hann er þögull, alvarlegur og smá feiminn.

Mér fannst þó leiðinlegt að þátturinn sýnir að Vilhjálmur virðist pirraður á mömmu sinni og leitar meira til ömmu sinnar. Finnst þetta ýta undir einhverja hugmynd að Vilhjálmur hafi falið höllina yfir aðra (Díönu, Harry), eins og þetta séu einhverjar fylkingar. Þetta er samt líka kannski áminning um að Vilhjálmur var eldri þegar þetta gekk allt á, The Crown er að sýna að hann er meðvitaðari um hvað er að gerast. 





Kom mér á óvart að horfa á að Charles Spencer, bróðir Díönu, hafi verið að gagnrýna hana svona mikið og að þau hafi átt svona slæmt samband. Vissi að það var ekki alltaf gott á milli þeirra en kom mér á óvart að hann hafi talað svona opinberlega um hana. Fjölskylda Díönu á sér dramatíska sögu, skilnaður foreldra hennar var ljótur og henni og systkinum hennar var aldrei vel við stjúpmóður sína. Einnig var mikið um rifrildi og ósætti meðal fjölskyldumeðlima. En það er samt alltaf gott að minna sig á að The Crown er ekki allur sannleikurinn heldur skáldskapur byggður á því sem gerðist. 

Tiggy með Harry og Vilhjálmi. 
Síðan er okkur sýnt hvernig Bashir náði að sannfæra Díönu til að koma í viðtal. En hann fer fyrst til bróður hennar, og nær þannig til Díönu. Í dag er vitað að þetta gekk mjög langt hjá honum og það kom mér á óvart hversu lítið er í raun sýnt í þáttunum. Bashir á að hafa lagt mikið upp úr því að þau hittust þegar enginn gat hlustað og sýndi henni fölsuð skjöl og bara laug að henni um næstum allt. Þættirnir sýna þó hversu mikið hann lagði sig fram við að ljúga að henni, og við að falsa skjölin. En það sem hann gerði var að sýna Díönu bankafærslur sem áttu að sýna að Karl, eða höllin, voru að borga starfsfólki hennar til að njósna um hana. Þetta gekk svo langt að Bashir sagði henni líka að Vilhjálmur væri að njósna um hana. En þetta varð til þess að hún hætti að treysta starfsfólki sínu, sem við sjáum smá í þættinum, og varð líka til þess að hún rak Tiggy sem var barnfóstra Harry og Vilhjálms. Tiggy
var mjög elskuð af strákunum og vel liðin af fjölskyldunni, en hún fékk bætur eftir að Dyson-skýrslan (sem rannsakaði þessi vinnubrögð Bashir) kom út, enda var uppsögn hennar ekki byggð á neinum staðreyndum. Strákarnir héldu samt sambandið við hana, henni var boðið í brúkaup Vilhjálms 2011, og brúðkaup Harrys 2018. Einn af sonum hennar var líka brúðarsveinn í brúðkaupi Vilhjálms og Katrínar.

Tom, ljóshærði strákurinn, var einn af brúðarsveinunum í brúðkaupi Vilhjálms og Katrínar og er sonur Tiggy. 

Tiggy og Tom í brúðkaupi Harry og Meghan 2018.



Að mörgu leiti er fáránlegt að fylgjast með þessum þættir, að fréttamaður hafi dirfst að haga sér svona og nýtt sér viðkvæma stöðu Díönu. En við höfum séð seríuna einnig ver að byggja upp það að Díana var viss um að það væri verið að hlusta á símtöl hennar og verið að sitja um hana. Bashir í raun staðfestir þennan grun hennar, sem er það sem hún vildi fá að heyra. En þetta er líka það sem BBC baðst afsökunar á í fyrra eftir að skýrslan kom út. En BBC er virt stofnun sem hefur verið lengi til, og það re ekkert farið lítið með það í þessum þætti. Vilhjálmur birti myndband þar sem hann les sína yfirlýsingu eftir að Dyson-skýrslan kom út, þar fór hann hörðum orðum um það hvernig BBC brugðist almenningi og móður sinni þegar kom að þessu viðtali. Hann vonaðist líka til að myndbandið yrði aldrei sýnt aftur og að fólk átti sig á að Díana var plötuð til að segja llt sem hún sagði þar. BBC hefur lofað að sýna aldrei viðtalið aftur. Takið líka eftir hvernig viðtalið er í raun ekki sýnt í þættinu, við heyrum bara hvað er sagt í því. Við sjáum þegar verið var að setja það upp, og það er þekkt að Díana senti allt sitt starfsfólk heim þegar viðtalið var tekið upp. 

Mér finnst samt þættinir ná líka að sýna að Díana var sannfærð um að hún gat ekki treyst neinum og vantaði mikið að tala við einhvern. Áður í seríunni sjáum við þetta þegar hún er að taka sig upp fyrir bókina. Hún virðist hafa verið frekar örvæntingarfull að segja sína sögu og sína upplifun. En Bashir tókst samt að mála hana út í horn og að segja hluti opinberlega sem hún hefði ef til vill ekki sagt undir öðrum kringumstæðum. 

Atriðin á spítalanum eru áhugaverð og gefur kannski smá sýn á hvernig persóna Díana var. Henni var mjög annt um fólkið í kringum sig og vill vera til staðar fyrir það. En svo sjáum við að hún er frekar að hugsa um sæta lækninn en vinkonu sína og líðan eiginmanns hennar. Síðan sjáum við hana heimsækja spítalann, án allra myndavélar, og sjáum hvað hún nær vel til fólks. Þetta er það sem Díana var mest elskuð fyrir, hún hafði víst einstakan hæfileika til að tala við fólk sem hún hafði aldrei hitt áður og hafði mikla nærveru. 

Díana og Hasnat Khan voru í sambandi á árunum 1995-1997 og var í raun alvarlegra en þættirnir sýna. Díana kallaði hann ástina í lífi sínu, og heimsótti fjölskyldu hans í Pakistan árið 1996. Þau kynntust fyrst eins og þátturinn sýnir, meðan Díana var að heimsækja mann vinkonu sinnar. Hasnat tjáði sig aldrei um sambandið fyrr en árið 2004 þegar verið var að rannsaka dauða Díönu. Hann hætti síðan með henni þar sem hann sá ekki fram á að höndla athygli fjölmiðla. 

Skemmtilegar staðreyndir/punktar:
  • Díana nefnir að Oprah Winfrey hafi haft samband við hana um að koma í viðtal. Það er enginn að fara að segja mér að þetta sé ekki viljandi tilvitnun í Harry og Meghan.

  • Það er í raun og veru sundlaug í Buckinghamhöll og Díana fór oft þangað til að synda, þar sem það er ekki sundlaug í Kensingtonhöll. Einnig eru Vilhjálmur og Katrín með sundlaug í Amner Hall, og Karl og Kamilla eru með sundlaug í Highrove House. 

5x08: Sprengjutilraun

Mér finnst mjög áhugavert að hugsa til þess hversu öðruvísi þessi sería hefði verið hefði hún komið út kannski tveimur árum fyrr, áður en Dyson-rannsóknin kom út. Fyrir voru smáatriðin ekki jafnvel þekkt, hversu mikið Díana var plötuð til að fara í Panorama-viðtalið. Held samt að hún hefði alltaf á endanum farið í svona viðtal, eða svipað, hún var að fá mikið af tilboðum. Vandamálið er ekki að hún fór í viðtal heldur hvernig var logið að henni til að fá hana í viðtal. Hún hefði kannski sagt annað eða öðruvísi undir öðrum kringumstæðum. Vilhjálmur talaði um þessar ranghugmyndir hennar í yfirlýsingu sinni varðandi rannsóknina, og talaði um hvað það hryggði hann að það var ýtt svona undir þær að hún trúði því að höllin væri á eftir henni. Þetta hefði verið til þess að hún neitaði öryggisliði eftir. aðhún skildi við Karl, þar sem hún hélt að það yrði notað gegn henni, og mér fannst eins og Vilhjálmur vildi meina að Parísarslysið hefði ekki orðið hefði hún haft öryggislið. 

Mjög áhugavert að tengja þetta svona við Guy Fawkes Night, að viðtalið hafi verið tilraun til að "sprengja" upp konungsríkið. En þetta er samt líka smá orðaleikur en á ensku er oft talað um "sprenguviðtal" (bombshell interview) þegar aðilar koma í viðtal og segja frá einhverjum skandal. 

Mér var smá illa við að sjá Vilhjálm skamma mömmu sína, Margir sem gætu byrjað að halda að Vilhjálmur hafi ekki sinnt mömmu sinni og hafið orðið þreyttur á henni. En mér finnst þetta sýna að hann er þarna að verða unglingur og í smá uppreisn, en líka hversu mikið Díana treysti á Vilhjálm og leit á hann sem trúnaðarvin. Margir hafa komið með þessa kenningu að Díana hafi sagt Vilhjálmi mjög mikið og treysti honum fyrir tilfinningum sínum, mögulega þegar hann var of ungur fyrir það. 

Ég skildi ekkert í því að Vilhjálmur er sýndur vera í tíma á sunnudegi, en ég finn ekkert um að þetta sé almenn hefð í skólanum. Pæliði samt í því hvernig er fyrir meðlimi konungsfjölskyldunnar að læra um breska sögu, að sitja svona í tíma og verið að ræða sögu fjölskyldunnar. 

Ég hef aldrei pælt í því að Díana er ekki með trúlofunarhringinn sinn í viðtalinu. Áhugavert að fylgjast með henni etja upp fyrir viðtalið og setja viljandi mynd af Harry og Vilhjálmi fyrir aftan sig. Þarna er verið að sýna að það skiptir máli hvað sést í bakgrunn og það er mikið pælt í því, þegar við sjáum aðeins inn á heimili konungsfjölskyldunnar, hvað er í bakgrunn. Hvaða myndir og hlutir eru. Þetta ýtir undir þá hugmynd að þetta er allt vel skipulagt. 

Áfram er þessi þáttur að sýna að Vilhjálmur er að "velja hlið" hallarinnar, mjög augljóst þarna í lok þáttar. Það er líka farið stuttlega í áhrifin sem þetta gæti hafa haft á Vilhjálm. Hvernig hann stirðnar upp þegar verið að tala um mömmu hans. Getur ekki hafa verið auðveldur tími fyrir þá bræður. En ég var líka allan þáttinn að pæla í því hvar Harry væri!? Í einu atriði þarna sjáum við að Díana er að taka upp viðtalið, Karl og Kamilla eru að horfa á flugelda í Highgrove, Vilhjálmur er með ömmu sinni í Windsor, en hvar var Harry??

Það er ótrúlegt að hugsa til þess hvað sagan virðist vera að endurtaka sig. Erfitt að hugsa ekki til Harry og Meghan þegar við sjáum að Díana er að reyna að láta Elísabetu vita fyrirfram af viðtalinu, en það er einhvern veginn aldrei tekið mark á henni, síðan eftir á er kvartað yfir því að málið hafi ekki verið rætt betur. Þetta minnir á sögu Harry og Meghan. Þau fóru líka í viðtal sem varð til þess að konungsfjölskyldan í raun neyddist til að gefa út yfirlýsingu, þó að þau vilji það ekki. 

En líka að viðtal Díönu er hennar upplifun og bara ein hlið á sögunni. Finnst samt The Crown hérna ná að sýna aðeins aðra hlið, t.d. sýna skýrt að Elísabet hataði ekki Díönu og að það er ekki gremja innan fjölskyldunnar gagnvart henni. Fólk er frekar þreytt á aðgerðum hennar og vorkennir henni. Kannski nær serían að kæfa alla orðróma um að konungsfjölskyldan hafi skipulagt dauða Díönu.

Áhugavert að sjá að þættirnir sýna að Díana sá eftir viðtalinu, að hún kannski áttaði sig ekki á hvaða áhrif það hafði. 

5x09: Kamilla drottning

Í þessum þætti er farið meira út í áhrifin sem viðtalið hafði. Það varð einhvern veginn meira almenn þekking að Karl og Kamilla áttu í ástarsambandi. Þátturinn sýnir líka að Kamilla varð fyrir miklu áreiti fjölmiðla eftir viðtalið, og fjölskylda hennar líka. Það er gefið í skyn að Kamilla og Andrew skilji eftir viðtalið, en þó það gerist sama ár þá sóttu þau um skilnað árið 1995 en Panorama viðtalið kemur út í nóvember sama ár. Viðbrögð almennings við orðum Díönu voru kannski svipuð sem var eftir Oprah viðtalið hjá Harry og Meghan, fyrst eru viðbrögðin góð og stuðningur en breytist svo í að fólk skilur ekki af hverju þetta var gert. En viðtalið við Díönu og svo dauði hennar varð til þess að ímynd Karls, og Kamilla var lengi mjög slæmt. 

Kamilla var  mikið hötuð í mörg ár, og almenningsálitið á henni var mjög slæmt. Við sjáum síðan Kamillu, og seinna Karl, hitta almannatengillinn Mark Bolland til að reyna að bæta úr ástandinu. Mér fannst mjög flottar samræður þegar Mark spyr Kamillu hvort hún vilji verða drottning, og að hún segir að hún vilji það ekki. The Crown æltar að sýna að Karl og Kamilla sé hjónaband sem er byggt ást, öfugt við Karl og Díönu. 

Karl og Mark Bolland.

Þegar Karl og Kamilla giftu sig 2005 var gefið út að hún yrði ekki þekkt sem prinsessan af Wales og að hún myndi ekki nota titilinn drottning þegar Karl yrði konungur. Það er ekki fyrr en á þessu ári, sem Elísabet í raun óskar eftir því að Kamilla fái tilinn "Queen Consort" sem hún tekur svo upp í september. Á íslensku gerum við ekki greinarmun milli drottninga sem eru þjóðhöfðingjar og drottningum sem eru eiginkonur þjóðhöðingja, þannig við köllum hana bara drottningu. 

Mark Bolland kemur samt í raun ekki til sögunnar fyrr en 1997, og var ráðinn til að bæta úr ímynd Karls eftir dauða Díönu. Síðan var það verkefni Mark og hans teymi að kynna almenning fyrir sambandi Karls og Kamillu, sem varð til þess að þau gátu gift sig 2005. Mark breytti smá leiknum fyrir konungsfjölskylduna og varð til þess að þau byrjuðu að hugsa meira um ímynd sína með aðstoð almannatengla og voru með meira "plan". Pælið aðeins í að era saman hvernig almenningsálitið hefur breyst mikið í dag, Kamilla er nokkuð virt og fólki líkar bara ágætlega við hana. Það er enginn að gagnrýna að hún sé eiginkona Karls, eða að hún sé hans maki. Allavega sárafáir.
 
Karl og Kamilla gerðu samband sitt opinbert árið 1999 með því að sjást fara frá The Ritz í London. Viðburður sem var byrjunin á skipulagi Mark Bolland og oft kallað "Operation Ritz"


Ég er of ung til að muna eftir Díönu, og ég verð alltaf jafn hissa á því hversu lengi Karl og Díana voru gift. Atriðið þar sem Karl heimsækir Díönu fannst mér mjög flott, og ég hálfðartinn vona að þau hafi átt svona samræður. Þar sem þau gátu verið hreinskilin við hvort annað og bara rætt málin. Finnst það samt ólíklegt, sagan er þarna aðeins að reyna að gera upp þeirra samband áður en Díana deyr. 

Tímalínan í þættinum er eitthvað spes, það er smá eins og þetta sé að gerast strax eftir viðtalið en þetta eru í raun viðburðir sem gerðust 1997, sama ár og Díana dó. Mark Bolland byrjar að vinna fyrir Karl, Díana og læknirinn hætta saman. 

Það hefur verið mikil umræða um leikaravalið í þessari seríu, en vá hvað mér finnst flott leikkonan sem leikur Kamillu. Finnst hún ná henni svo vel. 




Skemmtileg staðreynd:
- Við sjáum Kamillu fara í sitt eigið setur. En hún á það setur sjálf og fékk það eftir skilnaðinn við Andrew. Eftir að Elísabet dó tók við stíf dagskrá fyrir Karl og Kamillu og þau tóku sér sólarhringsfrí áður en jarðarförin var. Þau tóku það þó ekki saman, Karl fór til Highgrove og Kamilla í sitt setur. 

5x10: Loksins fær Edward línu. 

Nei ég meina það, hvar er Edward búinn að vera alla þessa seríu? Hann er eitthvað aðeins búinn að sjást en segir aldrei neitt. Var í smástund að fatta að þetta ætti að vera Edward. Fundurinn sem er þarna sýndur er ákveðið þing sem var stofnað til að allir fjölskyldumeðlimir gætu haft áhrif á stefnu konungsfjölskyldunnar og til að reynaað bæta samskiptin. Það var fundað frekar oft og mikið um umræður, og mörgum meðlimum, þar á meðal Elísabetu, fannst þetta leiðinlegir fundir og þeir hættu eftir nokkur ár. 

Karl sést mála í þessum þætti, en hann hefur sýnt málverkin sín á listasýningum og málar mikið langslagsmyndir. Filippus málaði líka og Katrín gerir það einnig. Við sáum svo um jólin í ár að Georg virðist hafa gaman að því að mála líka. 

Þessi samlíking milli Elísabetar og Britannia snekkjunnar er orðið frekar þreytt í seríunni. Að Elísabet sé þarna að verða gamaldags og fólk tengi ekki við hana, fannst í byrjun þetta sýna vel hvernig þetta var á þessum tíma en finnst vera gert of mikið úr þessu. Sérstaklega þar sem snekkjan hætti í notkun 1997 en Elísabet var drottning í 30 ár í viðbót. Konungsfjölskyldan var með athöfn í október sama ár og það vakti mikla athygli að Elísabet sást þurrka tárin. 

Ég hef ekki mikið að segja um þennan þátt þar sem ég bara skildi ekki að þetta væri lokaþátturinn í seríunni, fannst þetta frekar 'meh' endir. Mikið verið að byggja upp fyrir næstu seríu, sem verður sú seinasta og mun án efa fjalla mikið um dauða Díönu. Tony Blair mun koma þar meira við sögu, en hann hafði mikil áhrif á viðbrögð drottningarinnar og í raun sagði henni að hún þyrfti að ávarpa þjóð sína. Mohammed mun líka vera áfram í næstu seríu, en hann varð mjög reiður eftir dauða Díönu og Dodi og krafðist þess að slysið yrði rannsakað. Hann hélt því fram að konungsfjölskyldan hefði skipulagt slysið og laug að Díana hefði sagt honum að hún væri ólétt. 

En vá hvað þessi lokaþáttur var mikil vonbrigði, verð að segja það.