Elísabet II bretadrottning lést í dag 96 ára að aldri, eftir að hafa verið drottning í 70 ár. Margir muna ekki eftir öðru en henni sem drottningu.
Það er margt sem breytist núna, og margt sem er ekki alveg ljóst. Hvenær sumir titlar munu færast og hvenær peningum verður breytt og fleira á eftir að tilkynna. Það á líka eftir að tilkynna hvar og hvenær jarðarförin verður en það mun án efa verða mjög stór viðburður þar sem leiðtogar heimsins munu mæta.
Eins og margir vita þá er til plan fyrir þennan viðburð sem hefur lengi verið til. Planið ber titillinn "London Bridge is Down" og þar eru viðburðir næstu daga skipulagðir eftir mínútum. Núna byrjar í raun 9 daga dagskrá sem endar á jarðarförinni.
Hver er núna þjóðhöfðingi?
Um leið og Elísabet féll frá þá varð Karl konungur. Elísabet tilkynnti vilja sinn fyrr á árinu að Kamilla yrði þekkt sem drottning og mun Kamilla því bera þann titil. Hún mun þó verða "Queen Consort" þar sem hún er drottning sem eiginkona konungs.
Það þarf síðan að staðfesta Karl sem konung og það mun gerast á næstu dögum. Hann mun líklegast ávarpa þjóð sína í fyrramálið.
Karl er í dag Karl 3. Bretakonungur.
Aðrir titlar
Vilhjálmur er núna erfingi nr. 1 og allir færast núna einum ofar í erfðaröðinni. Vilhjálmur og Katrín eru núna hertogahjónin af Cambridge og Cornwall, en Cornwall titillinn er hærri er Cambrigde. Karl mun þó eflaust fljótlega gefa Vilhjálmi titilinn Prinsinn af Wales. Katrín mun þá verða prinsessan af Wales, en enginn hefur notað þann titil síðan Díana var með hann. Vilhjálmur og Katrín munu þá ganga undir titlunum Prinsinn og Prinsessan af Wales.
Samkvæmt lögum bera öll barnabörn konungs titilinn prins og prinsessa, sem þýðir að Archie og Lilibet eru núna prins og prinsessa. Það er í höndum foreldra þeirra hvort þau muni nota þá titla eða ekki. En þetta þýðir líka að Harry og Meghan og börn þeirra eiga rétt á meiri öryggi, en það hefur verið mikið deilumál. Spurning hvað mun gerast í því máli á næstunni.
Hvað gerðist í dag?
Um kl. 10:30 (á íslenskum tíma) í morgunn kom tilkynning frá höllinni að læknar hefðu áhyggjur af heilsu Elísubetar og að það væri verið að fylgjast með henni. Einnig kom fram að búið væri að láta fjölskyldumeðlimi vita. Strax var það merki um að staðan væri alvarleg. Seinna í dag kom fram að á sama tíma voru allir meðlimir þingsins látnir vita af stöðunni. Það sést á myndefni frá þinginu þegar blaði er dreift á milli fólks um ástand drottningarinnar.
Höllin er alls ekki þekkt fyrir að gefa út upplýsingar um heilsu drottningarinnar, heldur er hún frekar þekkt fyrir að halda málum leyndu og ekki gefa neitt út nema fjölmiðlar hafi komist að einhverju. Aftur var þetta merki um að staðan væri alvarleg.
Í hádeginu byrjuðu að koma fréttir um að fjölskyldumeðlimir væru að koma sér til Skotlands og vonandi náðu þau að kveðja. Anna prinsessa var þegar í Skotlandi og Karl og Kamilla komu mjög fljótlega. Kamilla var að taka upp viðtal og fór úr miðju viðtali, enn of aftur sýndi þetta að um væri að ræða alvarlegan viðburð.
Andrew, Vilhjálmur, Edward og Sophie fóru saman á flugvél og komu til Balmoral seinni partinn. Tilkynnt var að Harry og Meghan væru á leið til Balmoral og svo að Harry væri einn á ferð, en hann náði ekki að koma til Balmoral áður en tilkynnt var um andlátið.
Rétt eftir kl. 17 tilkynnti höllin svo að Elísabet hefð fallið frá.
Stuttu eftir það kom forsætisráðherra Bretlands með ræðu og staðfesti að núna væri það Karl konungur hinn þriðji sem væri þjóðhöðingi. Eftir ræðuna kom tilkynning frá nýjum konungi sem sagði að fjölskyldan væri að syrgja Elísabetu.
Núna bíður breska þjóðin, þjóðir Samveldisins og heimurinn eftir næstu skrefum.
Hvað gerist næst?
Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum núna um London Bridge, þar sem Elísabet dó í Skotlandi, þá mun hún fyrst vera færð í Holyrood-húsið í Edinborg. Hún mun síðan vera færð til St. Giles Cathedral þar sem verður guðþjónasta til að minnast hennar. Kistan verður síðan færð um borð í lest til London. Lestin mun fara hægt yfir Bretland og mun fólki gefast tækifæri til að kveðja og heiðra hana á hverri lestarstöð sem lestin mun fara um. Er þetta þar sem Elísabet dó í Skotlandi og þarf því að fylgja siðum skoska konungsveldsins, sem er hluti af því breska.
Það er margt framundan, fullt af hefðum og siðum sem hafa ekki sést í áratugi og munu eflaust vekja mikla furðu, enda um aldargamlar hefðir að ræða. Við munum eflaust heyra raddir um hvað þetta kostar líka, sérstaklega þar sem kostnaðurinn við að lifa í Bretlandi hefur hækkað mikið undanfarna mánuði.
Það sem við vitum núna um London Bridge hefur örugglega breyst mikið undanfarin ár, og munum við þurfa að bíða og sjá hvað verður.
Eins og sást á Platinum Jubilee í sumar, þá er Elísabet mikið elskuð af þjóð sinni og Bretar bera mikla virðingu fyrir henni. Í sumar hefur hún oft verið kölluð Amma þjóðarinnar.
Jarðarförin
Jarðarförin mun verða stór, líklega stærri en allt sem við höfum séð áður. Við getum átt von á að flestir leiðtogar heimsins munu koma og vera viðstaddir. London Bridge planið gerir ráð fyrir að meðlimir evrópsku konungsfjölskyldanna muni gista í Buckinghamhöll.
Krýningarathöfn
Karl hefur alltaf talað um að nútímavæða konungsfjölskylduna þegar hann myndi taka við og ég sé því ekki fyrir mér að krýningarathöfn hans og Kamillu verði mjög stór. Og hún verður líklegast ekki fyrr en á næsta ári, en Elísabet beið meira en ár með sína krýningarathöfn.
Seinasta myndin sem var tekin af Elísabetu, en myndin er síðan á þriðjudag. |